Ráða­menn Talí­bana í Afgan­istan til­kynntu í dag að öllum af­gönskum konum yrði skylt að hylja sig frá toppi til táar. Þetta er mikil aftur­för og stað­festir það sem að­gerðar­sinnar innan Afgan­istan óttuðust, að réttindi kvenna myndu minnka undir stjórn Talí­bana. Frétta­stofan AP greinir frá þessu.

Þetta er nýjasta til­skipun stjórnar Talí­bana í Afgan­istan, búist við er að frekari til­skipanir, sem mættu jafn­vel líka flokkast sem kúgun, eigi eftir að vera til­kynntar. Í apríl til­kynntu Talí­banar að konum yrði bannað að ferðast einar, en eftir mikla and­stöðu og há­værar kvartanir yfir því hefur því verið mætt með þöggun.

Til­skipunin krefst þess að konur sýni einungis augun og mælir með því að þær klæðist búrku frá toppi til táar. Þetta svipar til tak­markana sem konur þurftu að lifa við á valda­tíma Talí­bana á árunum 1996 til 2001.

„Við viljum að systur okkar lifi með reisn og öryggi,“ sagði Khalid Hanafi, einn ráð­herra Talí­bana. Annar em­bættis­maður sagði: „Fyrir allar virðu­legar af­ganskar konur er nauð­syn­legt að klæðast hettuslæðu og besta hettuslæðan er það sem er frá hoppi til táar. Það er hluti af okkar hefð og er virðingar­vert

Til­skipunin mælti einnig með að konur héldu sig heima ef þær hefðu enga mikil­væga vinnu úti í sam­fé­laginu.

Rann­sóknar­maður mann­réttinda­vakt Sam­einuðu þjóðanna, He­at­her Barr, hvatti al­þjóða­sam­fé­lagið til að setja sam­ræmdan þrýsting á Talí­bana. „Það er löngu kominn tími á al­var­leg og stefnu­mótandi við­brögð við vaxandi árás Talí­bana á kven­réttindi,“ sagði Barr.