Aftökur og aflimanir verða teknar upp að nýju í Afganistan nú þegar Talíbanar eru aftur við stjórn í landinu. Þetta segir Mullah Nooruddin Turabi yfirmaður fangelsis mála, þetta séu nauðsynlegar aðgerðir til að viðhalda öryggi.

BBC greinir frá.

Turabi segir þó mögulegt að refsingarnar verði ekki framkvæmdar opinberlega líkt og áður tíðkaðist undir stjórn Talíbana á tíunda áratug síðustu aldar. Hann gaf lítið fyrir gagnrýni á opinberar aftökur Talíbana í fortíðinni í samtali við AP News. Turabi varaði önnur ríki að hafa afskipti af þeirra lögum.

Talíbanar tóku yfir völdin í Afganistan þann 15. ágúst síðast liðinn. Síðan þá hafa þeir lofað mildari stjórn en þeir hafa verið þekktir fyrir í fyrri tíð. Þrátt fyrir það hafa tilkynningar ítrekað verið að berast um brot á mannréttindum þar í landi.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir stuttu að Talíbanar hefðu meðal annars útilokað stúlkur frá afgönskum gagnfræðaskólum. Þá hafi afgönskum konum á vinnumarkaði verið fyrirskipað að halda sig heima þar til ástandið í landinu batnar.

Þá þurfa konur í háskólanámi að undirgangast nýjar reglur um klæðaburð og mega ekki stunda nám við hlið karlmanna, sem ýmsir telja að muni útiloka þær frá mörgum háskólum þar sem ekki er hægt að bjóða upp á aðskilda kennslu.