Mikið er nú rætt um stöðu mála í Afganistan í kjölfar þess að Talibanar lögðu undir sig landið eftir tuttugu ára hersetu vesturlanda. Lára Jónasdóttir hefur tvisvar dvalið í Afganistan en hún starfaði þar á vegum Lækna án landamæra (MSF) í níu mánuði árið 2013 og svo aftur í sex mánuði árið 2015.
Lára segist þekkja fjölmarga sem búa í Afganistan og Kabúl en hefur þó ekki verið í miklu sambandi við það fólk nú.
„Ég hef ekki verið mikið í beinu sambandi við það því mér hefur bara þótt erfitt að vera í sambandi við fólk sem ég get ekki aðstoðað. Ég veit að ég hef ekkert að bjóða því. Ég var þarna á vegum Lækna án landamæra. Við erum stór hópur og mikið af fólkinu sem hefur verið að vinna þarna við tölum saman um okkar tíma,“ segir Lára.
Hún segist hafa fengið töluvert annað sjónarhorn á Afganistan heldur en fólk sem hefur starfað þar á vegum Atlantshafsbandalagsins eða Sameinuðu þjóðanna enda fái starfsfólk mannúðarsamtaka ekki sömu pólitísku vernd og starfsmenn alþjóðastofnana.
„Við búum eiginlega bara úti í hverfunum og vinnum hlið við hlið með heilbrigðisstarfsfólki. Við erum ekki að keyra um á brynvörðum bílum, við notum ekki hermenn eða öryggisgæslu og starfsfólk okkar myndi aldrei fá svona alþjóðlega vernd eins og kannski starfsmenn sendiráða og slíkt. Læknar án landamæra eru rosalega stór samtök en eru frjáls félagasamtök.“

Vantar heilu kynslóðirnar af menntuðum konum
Lára starfaði sem rekstrarstjóri hjá samtökunum og sá meðal annars um atvinnuviðtöl og launamál starfsfólks.
„Ég var að vinna á sjúkrahúsi og þá erum við auðvitað með fæðingardeild og okkur vantaði svo sárlega kvenkyns kvensjúkdómalækna og það er bara vegna afleiðinga Talibana þegar konur máttu ekki sækja sér menntun. Það er enn þann dag í dag þannig, það bara vantar heilu kynslóðirnar af menntuðum konum,“ segir Lára.
Hún segir þennan aðskilnað kynjanna vera eina skýrustu arfleifð valdatíð Talibana en þeir réðu síðast ríkjum í Afganistan á árunum 1996-2001.
„Við viljum ráða hæfar konur í störf en það er bara ofboðslega erfitt. Maður fann beint fyrir þessu, það voru kannski ekkert allir að tala um Talibanana endalaust en þetta er bara einhver svona sannleikur sem býr í samfélaginu. Alveg eins og á Íslandi, það vita allir að hér varð fjárhagslegt hrun og þetta bara er í okkur alla daga og hefur áhrif á samfélagið. Við tölum samt ekkert alltaf um það.“
Varðstu sjálf eitthvað vör við Talibana þarna úti?
„Maður veit alveg að þeir eru alls staðar. En við vorum aldrei að gera neitt sem var í bága við annað en við sögðum. Það var allt uppi á yfirborðinu og samtök eins og Læknar án landamæra eru að sjálfsögðu í sambandi við Talibana því að það væri engin leið fyrir okkur að vinna í Afganistan án þess að þeir leyfðu okkur að gera það. Sérstaklega þegar við vorum að fara út í hverfin með svona mobile clinic, þá þurftum við að sjálfsögðu að fá leyfi frá höfðingjum hverfanna sem hafa þá oft einhver tengsl við Talibana. En maður talar kannski ekki beint um það. Maður talar bara við fólkið og leiðtogana í hverfunum, mullah trúarleiðtogana og slíka. Maður er ekkert endilega að spyrja beint út í hvernig var fjölskyldan þín undir Talibönum. Þetta er bara raunveruleikinn sem er þarna.“

Talibanar ekki á móti nútíma heilbrigðiskerfi
Lára lýsir Afganistan sem landi með ríka sögu og segir Afgana vera mjög stolta af sinni og sögu og menningu. Þá segir hún að Afganistan sé gjarnan lýst sem „landið þar sem stórveldi fara til að deyja.“ Hún segir það hafa komið sér mikið á óvart hversu hratt Talibanar náðu aftur völdum í landinu þó eflaust hafi það verið viðbúið.
„Það kemur auðvitað okkur öllum á óvart hversu hratt Talibanarnir tóku yfir núna en ég held samt að það séu ekkert allir rosalega hissa að þetta hafi gerst. Traustið gagnvart yfirvöldum var bara ekkert, því þau voru ekki búin að sýna fram á að þau væru traustsins verðir. Fólk varð bara að treysta á sína fjölskyldu, sitt nærumhverfi, sinn ættbálk. Samfélagsleg samheldni var kannski ekki komin á og það sem þarf að byggja upp er auðvitað samfélag sem er miðstýrt, stýrt af Afgönum sjálfum, ekki einhverjum utanaðkomandi. Við byggjum ekki upp Norrænt samfélag í Afganistan við þurfum að byggja upp afganskt réttlætissamfélag.“
Hvaða þýðingu heldur þú að yfirtaka Talibana muni hafa fyrir afganskt samfélag og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið þar í landi?
„Það er í raun og veru svolítið erfitt að segja til að um það í dag því nýjustu fréttir eru búnar að sýna að Talibanar ætla mögulega að sýna einhverja samvinnu við þá sem eru við stjórnvöld. Þeir eru t.d. að veita viðtöl við kvenkyns fréttamenn og slíkt þannig mögulega ætla þeir að hafa einhverja aðra aðkomu. Ég held það sé bara best að vera örlítið bjartsýnn á að þeir ætli að leyfa konum að hafa einhvers konar sjálfstæði. En varðandi heilbrigðisþjónustu þá er það einmitt á sama hátt að það þarf aðeins að koma í ljós hvernig þeir munu taka yfir samfélagið. Því þeir eru þannig séð ekkert á móti nútíma heilbrigðiskerfi, þeir nýta það sjálfir og eru með lækna. Það þarf bara að sjá hvernig þeir koma að samningaborðinu. En Læknar án landamæra halda áfram að starfa í þeim fimm verkefnum sem við erum með og okkar starfsfólk sem er búið að vinna í tugi ára hjá MSF heldur þeim verkefnum bara gangandi. Ég held að fyrir heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægast að hafa í huga að konur hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og fæðingardeildum og slíku.“

Mikil hræðsla í samfélaginu
Alþjóðasamfélagið hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna stöðu kvenna í Afganistan en þegar Talibanar réðu síðast ríkjum í landinu voru réttindi kvenna mjög skert og máttu þær til að mynda hvorki ganga í skóla né vinna, nema að takmörkuðu leyti. Talsmenn Talibana gáfu í gær út yfirlýsingar þess efnis að afganskar konur muni njóta réttinda „innan regluverks íslamskra laga.“ Lára segir möguleika á því að um sýndarmennsku sé að ræða og tíminn verði að leiða í ljós hvaða réttindi konur muni njóta í Afganistan.
„Að sjálfsögðu höfum við öll alveg gífurlegar áhyggjur og þá sérstaklega af konum sem hafa staðið í framlínu fyrir jafnrétti kynjanna í Afganistan. Þær sem hafa verið leiðtogar á því sviði, það eru þær sem við höfum mestar áhyggjur af. Talibanar eru ekki þekktir fyrir að vera neinir sérstakir jafnréttissinnar. Það eru misvísandi fréttir að koma frá Afganistan, þeir segja að stefnan sé skýr, að konur eigi að geta haldið áfram að fara í skóla en á sama tíma er verið að vísa kvenkyns nemendum frá sumum háskólum. Almennt séð er bara ofboðslega mikil hræðsla í samfélaginu fyrir því sem koma skal. Ég held við þurfum bara að bíða í nokkrar vikur og sjá hver verður raunin. Á sama tíma þarf alþjóðasamfélagið að sýna mjög skýrt að þau munu ekki samþykkja það að Talibanar taki við stjórn án þess að hafa ákveðin jafnréttissjónarmið. Því í raun og veru getur alþjóðasamfélagið ekki gagnrýnt það að Talibanar taki við stjórninni, það er bara borgarastríð og þannig ganga kaupin á eyrinni.“
Hún segir að Ísland sé í lykilstöðu til að þrýsta á Afganistan að virða jafnréttisreglur en Ísland hefur tekið þátt í uppbyggingu landsins ásamt alþjóðasamfélaginu undanfarna tvo áratugi. Hún segist hafa mestar áhyggjur af þeim afgönsku konum sem eru búnar að mennta sig til að taka þátt í atvinnulífinu.
„Almennar konur í Afganistan, hún Amal sem er hjúkrunarfræðingur til dæmis, þessar konur þær hræðast óvissuna sem er núna. Fá þær að halda áfram að vinna vinnuna sína eða halda áfram að ganga í skóla?“
Það er ekkert betra en að sitja og spjalla við Afgana yfir tei og svo jafnvel byrja að syngja og mála smá henna á hendurnar.
Gífurlega fallegt land
Lára ítrekar að þrátt fyrir pólitískan óstöðugleika sé Afganistan mjög fallegt land sem er ríkt af sögu og menningu.
„Það eru bara allir sem hafa farið til Afganistan sammála um það að þetta er gífurlega fallegt land. Ef það væri ekki fyrir ástandið þarna þá væri þetta örugglega mjög vinsæll áfangastaður í fjallaklifur og fjallaferðir. Fólkið þarna er alveg einstaklega ljóðrænt, bókmenntasinnað og menningarsinnað. Það er einhvers konar rík menning sem býr þar og það er svo auðvelt að tengjast þessu landi.“
Þá segir Lára afgönsku þjóðina alltaf hafa haldið fast í sína menningu þrátt fyrir afskipti Vestrænna ríkja undanfarna áratugi og það megi jafnvel að hluta til útskýra hversu brösuglega hefur tekist að koma á lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn í landinu.
„Undir niðri þá heldur fólk svo sterkt í sína menningu og sínar hefðir. Þess vegna kannski hefur þetta ekki gengið af því það er verið að setja vestræna menningu yfir á samfélag sem er ekki byggt á vestrænni menningu heldur á sinni eigin, miklu ríkari menningu. Þess vegna þarf uppbygging landsins að vera miðstýrð af Afgönum en ekki frá utanaðkomandi aðilum.“
Gætir þú hugsað þér að fara aftur til Afganistan seinna?
„Ég myndi kannski ekki fara í dag enda kemst þangað enginn núna. En þegar ég var beðin um að fara aftur 2015 þá tók mig ekki langan tíma að segja já. Og ég myndi örugglega alveg treysta mér til þess að fara þegar það er kominn á einhver stöðugleiki, hvort sem það er undir Talibönum eða ekki. Því það skiptir bara máli að það sé stöðugleiki í landinu, hver sem er við völd. Talibanar geta jafnvel alveg haldið stöðugleika betur í landinu heldur en Ashraf Ghani.“
Lára tekur þó fram að Vestrænum konum hafi verið í sérstakri hættu í landinu og þá sérstaklega í höfuðborginni Kabúl.
„Það er alþekkt að vestrænum konum hefur verið rænt í Kabúl undanfarin þrjú ár. Það kannski nær ekki alltaf fréttum því það er farið þannig með málin. Þegar ég var þarna síðast þá var Svissneskri konu rænt sem var að vinna fyrir svissnesk félagasamtök og svo var hún látin laus. En það bara mikilvægt að það séu opin samskipti við alla aðila, þá er umhverfið tryggt og þá myndi ég alveg hundrað prósent fara því þetta land er frábært. Það er ekkert betra en að sitja og spjalla við Afgana yfir tei og svo jafnvel byrja að syngja og mála smá henna á hendurnar,“ segir Lára að lokum.