Talibanar hafa útilokað stúlkur frá afgönskum gagnfræðaskólum og leyfa nú einungis strákum og karlkyns kennurum inn í skólastofur. Breska ríkisútvarpið BBC ræddi við afganskar stúlkur sem segjast vera í áfalli vegna fréttanna og lýsa framtíðinni sem svartri.
Ein sextán ára stúlka frá Kabúl lýsti þessu sem sorglegum degi:
„Ég vildi verða læknir! Og sá draumur hefur nú horfið. Ég held að þeir muni ekki leyfa okkur að fara aftur í skólann. Jafnvel þótt þeir muni opna menntaskólana aftur, þeir vilja ekki að konur mennti sig.“
Opinberir aðilar í stjórn Talibana höfðu áður haldið því fram að konum og stúlkum yrði leyft að stunda nám og vinna innan marka íslamskra sjaríalaga.
Margir óttast þó að valdataka íslamska öfgahópsins muni marka endurhvarf til fyrri stjórnarhátta þeirra á tíunda áratug síðustu aldar þegar réttindi kvenna voru mjög skert og þeim hvorki leyft að mennta sig né vinna.
Konum skipað að vera heima
Frá því Talibanar náðu aftur völdum í Afganistan fyrir rúmum mánuði síðan hefur afgönskum konum á vinnumarkaði verið fyrirskipað að halda sig heima þar til ástandið í landinu batnar og vígamenn Talibana hafa ráðist á konur sem mótmælt hafa aðgerðum stjórnarinnar.
Svo virðist sem Talibanar hafi lagt niður ráðuneyti kvenréttinda á föstudag og sett í stað þess deild sem ætlað er að framfylgja ströngum íslömskum kennisetningum.
Áður en skólar í Afganistan opnuðu á laugardag var gefin út yfirlýsing þar sem sagði „Allir karlkyns kennarar og nemendur skulu mæta til sinna menntastofnana.“
Gagnfræðaskólar í Afganistan eru fyrir börn á aldrinum 13 til 18 ára og flestir eru kynjaskiptir.

„Er þetta tilgangur þess að vera kona?“
Bæði foreldrar og nemendur lýstu yfir miklum áhyggjum vegna stöðu mála og ein afgönsk stúlka sem stefnir á lögfræðinám sagði:
„Ég hef mjög miklar áhyggjur af framtíð minni. Allt virðist mjög myrkt. Á hverjum degi vakna ég og spyr sjálfa mig, af hverju er ég á lífi? Ætti ég að vera heima og bíða eftir því að einhver banki upp á og biðji mig um að giftast sér? Er þetta tilgangur þess að vera kona?“
Faðir hennar lýsti þessu svo:
„Móðir mín var ólæs og faðir minn kúgaði hana stöðugt og kallaði hana fávita. Ég vildi ekki að dóttur mín yrði eins og mamma mín.“
Mikið bakslag
Fyrr í vikunni tilkynntu Talibanar að konum yrði leyft að stunda nám við háskóla en myndu ekki fá að nema við hlið karlmanna og þyrftu að gangast undir nýjar reglur um klæðaburð.
Ýmsir telja að þessar nýju reglur muni útiloka konur frá mörgum háskólum því þeir muni ekki hafa úrræði til að bjóða upp á aðskilda kennslu. Þá mun það að meina stúlkum aðgang að gagnfræðaskólum leiða til þess að þær geti ekki stundað framhaldsnám.
Frá því að Talibanar voru flæmdir frá völdum í Afganistan árið 2001 hefur mikill árangur náðst í að bæta menntun og læsi í landinu, sérstaklega hjá konum og stúlkum. Fjöldi kvenna í grunnskólum hefur aukist frá næstum 0 upp í 2,5 milljónir, á meðan læsi kvenna hefur nærri tvöfaldast á einum áratugi upp í 30 prósent.
„Þetta er mikið bakslag fyrir menntun afganskra kvenna og stúlkna. Þetta minnir alla á það sem Talibanar gerðu á tíunda áratugnum. Við sátum uppi með heila kynslóð af ólæsum og ómenntuðum konum,“ segir Nororya Nizhat, fyrrum talsmaður afganska menntamálaráðuneytisins.