Talíbanar í Afganistan hafa gefið út bann við því að konur fljúgi í flugvélum án þess að vera í fylgd með karlmanni. Sérstakt ráðuneyti Talíbana um hvatningu til dyggða og forvarnir gegn löstum tilkynnti flugfélögum í landinu þetta í dag. Bannið tekur bæði til millilandafluga og til flugferða innanlands.

Samkvæmt heimildarmönnum fréttastofu Reuters verður konum sem höfðu þegar bókað flugmiða leyft að ferðast einsamalar í dag og á morgun. Engu að síður hafa sumar þeirra nú þegar verið stöðvaðar á flugvöllum í landinu. Stefna Talíbana er sú að konur sem ferðist erlendis til þess að fara í nám verði að hafa karlkyns ættingja í fylgd með sér.

Frá því að Talíbanar komust aftur til valda í Afganistan í fyrra hafa þeir þrengt mjög að kvenréttindum í landinu. Áður höfðu Talíbanar gefið til kynna að þeir hefðu mildað stefnu sína frá því sem viðgekkst á fyrri stjórnartíð þeirra í kringum aldamótin og myndu virða tiltekin réttindi sem konur hafa áunnið sér á síðustu tuttugu árum. Réttur kvenna og stúlkna til að leita sér náms hefur hins vegar verið verulega skertur og stúlknaskólar hafa víða staðið lokaðir.

Áætlað var að stúlkur fengju aftur að mæta í kennslustundir í þessari viku þar til Talíbanar tilkynntu skyndilega að skólar yrðu áfram lokaðir stúlkum í óákveðinn tíma. Opinberlega hafa þeir skýrt áframhaldandi lokun með því að vísa til skorts á kennurum og þess að ekki sé nóg til af skólabúningum og hafna því að bannið eigi að vera viðvarandi. Heather Barr, varaframkvæmdastjóri kvennréttindadeildar Mannréttindavaktarinnar, tekur þessar skýringar ekki trúanlegar og segir að um sé að ræða afsakanir sem eigi að réttlæta varanlega skerðingu á námsrétti kvenna.