Af­gönskum konum, þar með talið kvenna­lands­liðinu í krikket, verður bannað að stunda í­þróttir undir nýrri ríkis­stjórn Tali­bana, sam­kvæmt með­limi í stjórn öfga­hreyfingarinnar. The Guar­dian greinir frá.

Í við­tali við áströlsku sjón­varps­stöðina SBS sagði að­stoðar­yfir­maður menningar­deildar Tali­bana, Ahma­dullah Wasiq, að í­þróttir kvenna væru hvorki taldar við­eig­andi né nauð­syn­legar.

„Ég tel að konum ætti ekki að vera leyft að spila krikket af því það er ekki nauð­syn­legt fyrir konur að spila krikket. Í krikket gætu þær lent í að­stæðum þar sem and­lit þeirra og líkami eru ekki hulin. Íslam leyfir ekki að konur séu sýndar á þennan hátt,“ segir Wasiq.

„Í dag er tíma­bil fjöl­miðlunar og það munu verða teknar myndir og mynd­bönd og fólk mun sjá það. Íslam og Íslamska Fursta­dæmið leyfa konum ekki að spila krikket eða hvers kyns í­þróttir þar sem þær eru ber­skjaldaðar.“

Ný bráða­birgða­ríkis­stjórn Tali­bana sem er ein­göngu skipuð stuðnings­mönnum Tali­bana og inni­heldur engar konur tók form­lega við völdum í Afgan­istan í dag. Utan­ríkis­ráðu­neyti Banda­ríkjanna lýsti yfir á­hyggjum að engar konur skuli gegna em­bættum innan stjórnarinnar og að meðal með­limum hennar séu ein­staklingar með vafa­sama for­tíð en tók þó fram í yfir­lýsingu að stjórnin myndi verða dæmd út frá gjörðum sínum.

„Heimurinn fylgist náið með,“ segir í yfir­lýsingu utan­ríkis­ráðu­neytisins.

Evrópu­sam­bandið for­dæmdi einnig ríkis­stjórn Tali­bana fyrir það að snið­ganga konur í em­bætti og sagði sam­setningu stjórnarinnar fara þvert gegn lof­orðum Tali­bana undan­farnar vikur um breytta stefnu og nú­tíma­legri við­horf.

Mál­efni kven­réttinda innan Afgan­istan munu að skipta sköpum fyrir við­brögð al­þjóða­sam­fé­lagsins við nýrri ríkis­stjórn Tali­bana og af­staða þeirra til í­þrótta­iðkunar kvenna og stjórn sem saman­stendur ein­göngu af karl­mönnum eru af mörgum á­litin hringja við­vörunar­bjöllum fyrir fram­haldið.

Í stefnu­markandi yfir­lýsingu sem fylgdi til­kynningunni um nýju stjórnina reyndu Tali­banar að sefa ótta ná­granna­ríkja og heims­byggðarinnar en í henni var hvergi minnst á konur.

Krikket­sam­band Afgan­istan segist ekki hafa fengið upp­lýsingar frá opin­berum aðilum um ör­lög kvenna­lands­liðsins í krikket en hafa engu að síður leyst upp kvenna­krikket deild sína.

Af­ganskar í­þrótta­konur, þar á meðal krikket­leik­menn, hafa verið í felum allt frá því að Tali­banar réðust til valda í síðasta mánuði sam­hliða brott­hvarfi banda­ríska hersins frá landinu. Sumar í­þrótta­konur hafa greint frá hótunum um of­beldi frá Tali­bönum ef þær eru gripnar við að spila.

Þá telja ýmsir að bann við í­þróttum kvenna gefi vís­bendingar um að við­horf Tali­bana til kvenna hafi lítið mildast frá því þegar þeir voru síðast við völd, þrátt fyrir í­trekuð lof­orð um hið gagn­stæða.