Upplýsingafulltrúi Talibana segir að þeir séu á lokametrunum í að mynda nýja ríkisstjórn í Afganistan, en von var á yfirlýsingu um myndun ríkisstjórnarinnar í gær.

Talibana, sem hafa hingað til verið hópur vígamanna í landinu, bíður nú það verkefni að skipuleggja sig sem stjórnmálaflokk. Talibanar hrifsuðu til sín völdin í landinu nýverið, en Bandaríkin höfðu þá dregið herlið sitt frá Afganistan eftir um það 20 ára veru í landinu.

Rúmlega 120 þúsund manns hafa flúið landið eftir að Talibanar tóku við stjórnartaumunum, en ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að taka við 120 Afgönum. Ríkisstjórnin samþykkti tillögur flóttamannanefndar sem fela í sér aðstoð við Afgana, sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru þegar komnir með dvalarleyfi hér á landi, um að komast til landsins. Um er að ræða bæði einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér og einstaklinga sem hyggjast hefja hér nám.

Þrjátíu og þrír Afganar eru komnir til Íslands, en í síðasta mánuði sóttu nítján Afganar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Þróunarsamvinnuráðherrar Norðurlanda og framkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) ræddu stöðuna í Afganistan á sérstökum fjarfundi fyrr í vikunni. Áframhaldandi starf stofnana Sameinuðu þjóðanna í landinu og aðgerðir landanna á sviði mannúðar­aðstoðar voru til umræðu, sem og möguleikinn á langtíma­þróunarsamvinnu í Afganistan.

„Það er brýnt að alþjóðasamfélaginu takist að tryggja áframhaldandi mannúðaraðstoð og aðgengi í landinu á þessum óvissutímum, en um leið þarf að huga að því að vernda lífsviðurværi afgönsku þjóðarinnar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

„Norðurlöndin eru einhuga um að leggja sitt af mörkum í þeirri flóknu stöðu sem upp er komin, í góðu samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna,“ segir Guðlaugur Þór enn fremur.