Dómstólar í Bandaríkjunum hafa nú neitað að sleppa fanga lausum, sem afplánar lífstíðardóm fyrir morð. Hann krafðist þess að vera látinn laus vegna þess að hann hafði dáið fyrir fjórum árum og því í raun lokið lífstíðardómi sínum þá.

Fanginn heitir Benjamin Schreiber og er 66 ára gamall. Hann hlaut lífstíðardóm fyrir að berja mann til dauða með kylfu árið 1996.

Schreiber fékk alvarlega sýkingu af völdum nýrnasteina árið 2015 og var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem hann var endurlífgaður fimm sinnum. Þar sem hjarta hans hætti að slá og hann hafi tæknilega séð verið dauður um stund segir hann dóminn nú uppfylltan.

Bað ekki um að vera endurlífgaður

Í stefnu Schreibers segist hann hafa verið endurlífgaður án hans vilja og að andlát hans, þó stutt hafi verið, hljóti að uppfylla lífstíðardóminn.

Málið hafði þegar verið rekið fyrir héraðsdómi, sem hafnaði kröfu Schreibers. Hann áfrýjaði þá til áfrýjunardómstóls í Iowa, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í vikunni.

Í dómnum kom fram að það væri harla ólíklegt að Schreiber væri látinn þar sem hann skrifaði sjálfur undir öll skjöl í málinu. Þá kom fram að dómurinn verði ekki uppfylltur fyrr en réttarmeinalæknir ríkisins úrskurði hann látinn.

Frétt BBC um málið.