Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar í fyrra um að sýkna mann um kynferðislegt brot gegn stúlku undir 15 ára aldri eða að hafa sýnt af sér gáleysi um aldur stúlkunnar.

Samræði óumdeilt en ekki framburður stúlkunnar

Maðurinn var ákærður í héraði fyrir að brjóta kynferðislega gegn barni, með því að hafa sumarið 2016 látið stúlku undir fimmtán ára hafa við sig munnmök og að hafa haft við hana samræði. Maðurinn var ákærður fyrir brot á almennum hegningarlögum þar sem segir að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára skuli sæta fangelsi, ekki skemur en í 1 ár og allt að 16 árum.

Mynd/Ernir Eyjólfsson

Í niðurstöðu Landsdóms segir: „Í málinu er óumdeilt að ákærði hafði samræði og önnur kynferðismök við brotaþola á þeim tíma og stað sem er tilgreindur í ákæru málsins.“ Þá liggi fyrir að stúlkan hefi verið of ung samkvæmt hegningarlögum en ósannað væri með óyggjandi hætti að maðurinn hafi vitað um réttan aldur hennar.

Ber ekki saman um upplýsingar um aldur

Í skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi sagði maðurinn að stúlkan hefði sagt honum í upphafi samskipta þeirra að hún væri 17 ára. Stúlkan hefur aftur á móti bæði í skýrslu í Barnahúsi og fyrir Landsrétti sagt að hún hafi í upphafi samskipta þeirra á samskiptamiðlum sagt manninum hvað hún væri raunverulega gömul en maðurinn og stúlkan voru í samskiptum einhvern tíma frá árinu 2015 til haustsins 2016.

Eyddi gögnum

Ekki þóttu nægileg gögn til um samskipti mannsins og stúlkunnar. Engin gögn séu til um hvaða aldurstengdu upplýsingar um stúlkuna, svo sem um skóla hennar, félagsstarf eða annað, hafi verið aðgengilegar manninum. Þá segir að miðað við framburð vitna sé ekki hægt að ætla manninum að hafa átt að grennslast fyrir um aldur stúlkunnar. Engin gögn um rafræn samskipti séu til en stúlkan sagði í skýrslu í Barnahúsi að hún hefði eytt öllum slíkum samskiptum milli sín og ákærða stuttu eftir atvikið. Í máli ákæruvaldsins kom þó fram að í rannsóknargöngum sæist að lögregla hefði ekki sannreynt þennan þátt málsins.

Mynd úr Barnahúsi
Mynd/Valgarður Gíslason

Vinkonur stúlkunnar sögðu í skýrslutöku, hana vera þroskaða líkamlega og andlega og vel hafa getað virst 17 ára. Dómurinn taldi nærtækara að líta til framburðar vinkenna sem eru nær stúlkunni í aldri en móður hennar og sálfræðings sem töldu hana samsvara sér í aldri og ekki hafa getað litið út eldri en hún var.

Framburði ber ekki saman

Landsréttur nefnir einnig að nokkuð beri í milli lýsingar stúlkunnar annars vegar og vinkvenna hennar hins vegar um það hvort hún eða maðurinn hafi átt frumkvæði að kynferðislegum samskiptum. Stúlkan sagði manninn hafa átt frumkvæðið og lýsti því að hún hefði ekki getað spornað við verknaðinum þar sem hann hefði bæði verið eldri og stærri. Í vitnisburði einnar vinkonu stúlkunnar í Barnahúsi hafi komið fram að stúlkan hafi sagst ætla sér að stunda kynlíf með manninum.

Orðinn fullveðja

Einnig væri ósamræmi milli frásagnar stúlkunnar og vinkvennanna um líðan hennar eftirá. Í dómnum má svo lesa að maðurinn hafi nýverið náð þeim aldri að verða að verða fullveðja og því undir tvítugu. „Þrátt fyrir að hann hafi þá verið fullveðja að lögum verða ekki gerðar jafn ríkar aðgæslukröfur til manna á hans aldri og þeirra sem eldri eru,“ segir í dómi Landsréttar.