Karlmaður var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudaginn fyrir umsáturseinelti gagnvart fyrrverandi vinnufélaga sínum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi fylgst með og sett sig í samband við konuna gegn hennar vilja með tölvupóstum og skilaboðum í gegnum vefsínu bland.is. Auk þess að hafa fylgst með konunni meðal annars fyrir utan heimili hennar.

Ómerkileg og lygin

Maðurinn hélt því margítrekað fram að konan hafi svikið sig um kynlíf og að hún ætti því meðal annars að hafa vit á því að vera annars staðar en hann það sem eftir var, hún væri ómerkileg og lygin. Þá væri hún heppin að hann væri bara reiður og að hún ætti eftir að sjá eftir því alla ævi að hafa svikið hann.

Manninum er gert að greiða þolanda sex hundruð þúsund krónur í miskabætur auk alls sakarkostnaðs. Fullnustu refsingarinnar, tveggja mánaða fangelsi, er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði skilorði. Hann hefur ekki sætt refsingu áður.

Háttsemi mannsins ollu hræðslu og kvíða hjá konunni en hún lagði fram kæru vegna málsins í lok septembers 2021 auk þess að óska eftir nálgunarbanni. Hún samþykkti vægara úrræði gagnvart manninum, svokallaðri Selfossleið. Þá skrifar meintur sakborningur undir yfirlýsingu um að hafa ekkert samband við brotaþola í allt að tólf mánuði frá undirritun. Þann samning braut ákærði aðeins tíu dögum frá undirritun.

Fannst hann illa svikinn

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en hann viðurkennir að hafa sent þau skilaboð sem ákært er fyrir. Hann viðurkennir að hafa talað um kynlíf en kvaðst hafa verið ósáttur við það hvernig samskipti hans og brotaþola hafi endað og fundist hann illa svikinn.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi sent konunni fjórtán skilaboð með þrettán tölvupóstum og einum skilaboðum á bland.is á tímabilinu 1. apríl til 26. ágúst 2021. Flest skilaboðin fjalli um að brotaþoli hafi lofað ákæra kynlífi og svikið það loforð en það hafi hún ekki haft heimild til að gera.

Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir háttsemi sína en hann hefur ekki hlotið refsingu áður.