Klór­slys varð í Grafar­vogs­laug í gær­kvöldi þegar gestur sund­laugarinnar fór inn í lokaða geymslu, sótti þar klór sem hann taldi vera vatn og hellti á steina í gufu­baði laugarinnar.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg en í greint var frá slysinu í gær­kvöldi. Í til­kynningunni er tekið fram að ekki sé rétt, sem fram hefur komið, að starfs­menn hafi verið að þrífa gufuna eða gleymt að loka hurð þegar ó­happið varð.

Þar sem klór getur verið skað­legur öndunar­færum fóru nokkrir til skoðunar á bráða­mót­töku. Í til­kynningunni er tekið fram að um slys hafi verið að ræða og lög­regla hafi rætt við alla hlutað­eig­andi.

„Við hörmum að þetta ó­happ hafi átt sér stað,“ er haft eftir Hrafni Þór Jörgens­syni, for­stöðu­manni Grafar­vogs­laugar, í til­kynningunni. Hann segir enn fremur að ÍTR fari ítar­lega yfir málið og gripið hafi verið til við­eig­andi ráð­stafana.