Margvíslegar beytingar hafa verið kynntar á því hvernig Vegagerðin mun standa að vinnubrögðum vegna malbikunar og viðhaldsvinnu vega.

Gripið verður til hertra krafna til verktaka og eftirlitsaðila. Tilefnið banaslyss á Kjalarnesi í fyrrasumar þegar karl og kona létu lífið á bifhjóli kynnti. Slysið varð á flughálu malbiki sem var gallað og stóðs engan vegin öryggiskröfur.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar segir í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld að eftir slysið hafi fengist þekking sem hafi ekki verið til áður.

Aðspurð hvort stjórnendur Vegagerðarinnar hafi ekki séð að það væri þörf á þessum bótum í verklagi áður en banaslysið varð, segir Bergþóra að spurningin sé mjög góð að því leyti að það fái menn til að hugsa margt þegar aðstæður sem riðla verklagi skapast, verklagi sem hafi reynst vel til langs tíma.

„Við sáum ekki fyrir þessa hættu enda eðlilega, þetta verk sem um ræðir er viðhaldsverk, rútínuverk þetta er verk sem er unnið síendurtekið, venjubundið verk og þau hafa gengið mjög vel í höndunum á reyndum verktökum,“ segir Bergþóra. Um ábyrgðina og hver eigi að bera hana segir Bergþóra slíka spurningu eiga mikið erindi. Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki stigið til hliðar vegna slyssins eða gera það nú, þar sem banvænu mistökin gerðust á hennar vakt, segir hún það ekki koma til greina. „Af hverju steig ég ekki hliðar? Því ég taldi það ekki vera það sem ég ætti að gera, ég taldi að það sem ég ætti að gera væri að takast á við þetta,“ svarar Bergþóra í samtalinu við Lindu Blöndal. „Ég get sagt þér hvernig ábyrgðin liggur, það er þannig að verktakinn tekur yfir veghald á veginum á þeim tíma sem verið er að vinna þar og ber ábyrgð á sínu verki .“

Veghald er almennt hjá Vegagerðinni en færist því til Verktaka þegar verk er unnið á tilteknum vegi.

„Við erum hins vegar ekki að skorast undan ábyrgð, við erum veghaldarar og við tökum ábyrgð á því að þróa verklagið þannig að það séu viðbrögð við þeim frávikum sem við þekkjum og hafa komið fram í okkar áhættugreiningum. Þarna verður frávik sem var ekki inni í þeim greiningum. Þess vegna erum við að endurtaka þær,“ útskýrir Bergþóra, forstjóri Vegagerðarinnar.

Verkefnissjóri umrædds verks á Kjalarnesi var á vegum Vegagerðarinnar.

Er málið, sem er til rannsóknar hjá lögreglu, ekki líka innanhússmál?

Bergþóra segir ábyrgðina aðallega verktakans: „Við höfum ekki sorterað þetta í innan- og utanhúsmál. Við höfum tekið ferilinn fyrir í heild sinni. Verkefnisstjórinn gerir samning við verktaka á grundvelli útboðsgagna, hefði verktakinn staðið við þær kröfur þá hefði ástandið á veginum ekki verið með þessum hætti.“

Lögreglan rannsakar málið og að minnsta kosti einn hefur réttarstöðu grunaðs manns vegna slyssins. Bergþóra segist engar upplýsingar hafa um rannsókn lögreglu og hún hafi sjálf ekki verið kölluð í skýrslutöku „enda er ég hvorki aðili að kröfunum eða útboðinu sem slíku og þeir sem hafa verið kallaði til frá Vegagerðinni hafa fyrst og fremst verið kallaði til, til að varpa ljósi á kröfurnar sem lágu til grundvallar.“