Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík Suður tókust á í Pólitík með Páli á Hringbraut í gærkvöldi. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni neðst í fréttinni.
Báðar hafa þær oft verið nefndar helstu vonarstjörnur flokka sinna. Þar spurði Páll Magnússon, þáttastjórnandi, Kristrúnu meðal annars að því hvort henni finndist skynsamlegt að Samfylkingin útiloki að starfa með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn.
„Ég er bara sátt við þetta. Mér finnst þetta sýna mjög skýra afstöðu og ég held að fólk kalli eftir því að stjórnmálaflokkar sýni afstöðu,“ segir Kristrún. Flokkurinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að hann vilji hrinda af stað breytingum í skattamálum, heilbrigðismálum og loftlagsmálum og vilji gera meira en troða marvaðann, sem Kristrún segir núverandi ríkisstjórn gera.
Þórdís Kolbrún segir aðspurð af Páli að hún geri ekki athugasemd við afstöðu Samfylkingarinnar út frá stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem stærsta flokksins. „Þessi ríkisstjórn hefur náð mjög miklum árangri í mjög mörgum málum. Vissulega eru mál sem er erfiðara að ná niðurstöðu um í þessu stjórnarsamstarfi en ef það væri eitthvað allt annað stjórnarsamstarf, en við höfum farið í mjög miklar breytingar, stórkostlegar fjárfestingar í nýsköpun sem er að gera Ísland sterkara,“ segir Þórdís. Hún segir sátt hafa verið um það, og þá hafi mikil áhersla verið lögð á loftlagsmál og farið í aðgerðir sem aðrar ríkisstjórnir hafa ekki gert.
„Talandi um flokka sem hafa minnkað“
Kristrún sagði stjórn málamiðlanna, líkt og núverandi ríkisstjórn, þýða að gengið yrði gegn ósk meirihluta þjóðarinnar. Hún sagðist telja vel hægt að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Í stóru þungum málum væri samstaða meðal flokka á vinstri ásnum. „Auðvitað er eðlismunur víða en í stóru þungu málaflokkunum eru margir sameiginlegir fletir, alveg eins og það eru skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins, sem er meðal annars ástæðan fyrir því að hann hefur minnkað í gegnum tíðina.“
Þá greip Þórdís Kolbrún orðið. „Talandi um flokka sem hafa minnkað. Hér talar frambjóðandi Samfylkingarinnar eins og Samfylkingin sé þungamiðjuflokkur í íslenskri pólitík og sé einmitt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn sem einhver breiðfylking hægri krata og fólks á miðjunni. Staðreyndin er náttúrulega ekki sú,“ sagði Þórdís.
Samkvæmt nýjustu könnun Maskínu mælist Samfylkingin með 12,3 prósent fylgi, rétt á eftir 12,5 prósentum Vinstri grænna, sem eru næst stærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokki Þórdísar sem mældist með 23,9 prósent.
„Samfylkingin er ekki þessi stóri flokkur eða þungamiðja í íslenskri pólitík. Mér finnst almennt fara betur á því að tala við kjósendur, þeirra er valið, upp úr því kemur einhver niðurstaða og svo er það okkar sem bjóðum okkur fram til að vera hérna til þjónustu við fólk sem býr í þessu landi að finna út úr því hvernig það er best gert og það verður ekki gert án málamiðlanna.“
Tókust á um skattatillögur Samfylkingar
Þá ræddi Páll um skattastefnur flokkanna við þær stöllur og fór mikill tími í að ræða tillögur Samfylkingar um stóreignaskatt. Þórdís segir aðalatriði vegna loforða Samfylkingar í þeim málaflokki vera sú að verkin tali og sporin hræði. Enn sé verið að vinda ofan af skattahækkunum vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Ég hef heyrt hérna því haldið fram að fyrirmyndarríki í skattamálum eins og Sviss sé með stóreignaskatt og Norðmenn líka,“ segir Þórdís. Horfa þurfi á heildarsamhengi skattkerfisins, Norðmenn séu til dæmis ekki með erfðafjárskatt og Sviss ekki með fjármagnstekjuskatt.
„Hér erum við með fjármagnstekjuskatt, við erum með erfðafjárskatt, við í dag skattleggjum laun, við skattleggjum hagnað, við skattleggjum neyslu og hér á að bæta við sérstökum eignaskatti,“ segir Þórdís. Margt sé óljóst við þær tillögur og Sjálfstæðisflokkurinn ekki flokkur skattahækkana.
Þá svaraði Kristrún því að sér finndist gott að taka þessa umræðu. „Vegna þess að ég get til dæmis ekki séð neinsstaðar í stefnu Sjálfstæðisflokksins neinar tölur,“ segir Kristrún.
„Það er bara talað almennt í kosningastefnunni, það er ekki talað um hvað hlutirnir munu kosta. Þau eru alltaf eini flokkurinn sem ná að skella fram einhverjum hugmyndum og það þarf aldrei að verðmeta neitt því þau ætla alltaf að auka framleiðni og hagræða rekstri,“ segir Kristrún.
Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með fjármálaráðuneytið í 27 af síðustu 30 árum og ætti líka að þurfa að svara fyrir það hvernig flokkurinn ætli að ná fram sínum breytingum. Samfylkingin ætli sér að lækka skatta á barnafólk.
Þá segir Kristrún mikla framþróun hafa orðið í rannsóknum á skattamálum. Nauðsynlegt sé að sækja fjármagn til að standa straum af rekstrarútgjöldum. Virkni hópa líkt og barnafólks geti aukist með viðkomandi skattlagningu. „Þetta er sanngjörn skattlagning, það er ekkert óeðlilegt við þetta og það sem mér finnst áhugaverðast í þessari kosningabaráttu er hvað þetta hefur vakið mikla athygli að sækja fjármagn í þennan litla hóp til að styrkja miðjuna.“
Þórdís svaraði því þá að undanfarin ár hafi verið nýtt til að bæta stöðu þeirra hópa sem Kristrún nefndi líkt og barnafólk og öryrkja. „Kaupmáttur allra hefur aukist ár frá ári og við höfum ekki verið að fara í einhverjar stórkostlegar skattahækkanir og fimleikaæfingar, heldur höfum við verið að gera skattkerfið skilvirkara, við höfum veirð að lækka tekjuskatt, sérstaklega þeirra sem eru með lægri tekjur, og staða allra hópa hefur verið að batna.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan: