Fjöldi sýktra einstaklinga af kórónaveirunni á Ítalíu er kominn í 132. Antonio Borelli hjá Almannavörnum ítalska ríkisins greindi frá þessu í dag. Tveir eru látnir af völdum veirunnar, 75 ára kona í Lombardy-héraði og 78 ára karlmaður frá Veneto-héraði en alls eru 89 af þeim sýktu búsettir í Lombardy-héraði.

Jafnframt eru um 150 manns í einangrun meðan möguleiki á Covid-19 smiti er rannsakaður, þar á meðal nokkrir heilbrigðisstarfsmenn. Flest eru tilfellin í bænum Codogno suðaustur af Mílanó. Yfirvöld hafa skipað fyrir um að loka meðal annars öllum veitingastöðum, skólum, líkamsræktarstöðvum og fleiri opinberum samkomustöðum tímabundið í ákveðnum bæjum.

Einnig hefur fjölda samkoma verið aflýst á Norður-Ítalíu, meðal annars öllum íþróttaleikjum í Lombardy og Veneto-héraði. Þremur leikjum í efstu deild ítölsku knattspyrnunnar var aflýst. Einnig er búið að aflýsa hinu vinsæla Feneyjarkarnívali sem þúsundir ferðamanna koma að sjá á ári hverju.

Lokunarbann geti varað í vikur

Tíu bæir í Veneto-héraði eru nú lokaðir fyrir alla umferð og nær það til rúmlega 50 þúsund manns. Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, hefur sagt að það gæti varað í vikur.

Heilbrigðisráðherra Ítalía, Roberto Speranza segir að tilfellin séu með svipuðum hætti og þau sem þegar hafa komið upp í Þýskalandi og Frakklandi.

Ríkisstjóri Veneto, Luca Zaia, varar íbúa við því að fólk smitist af vírusnum líkt og hverri annarri flensu og ekki sé lengur hægt að reyna að einangra upptökin.

„Þú getur fengið hann frá hverjum sem er. Meðan að vírusinn er ekki sérstaklega banvænn er hann lífshættulegur fyrir eldra fólk með undirliggjandi veikindi.“