Al­var­legt á­stand blasir nú við Kína vegna kóróna­veirunnar að sögn for­seta landsins, Xi Jin­ping, en að minnsta kosti 41 manns hafa látist af völdum veirunnar og eru um 1300 smitaðir. Víða hafa ferða­við­varanir verið gefnar út og hefur neyðar­á­standi verið lýst yfir í Hong Kong að því er kemur fram í frétt BBC.


Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá kom veiran upp í borginni Wu­han um ára­mótin en um er að ræða nýja gerð af lungna­bólgu. Alls hefur um­ferð til og frá 16 borgum í Kína verið lokað en til­kynningar hafa einnig borist um smit í Banda­ríkjunum, Frakk­landi og Finn­landi, meðal annars.

Vel fylgst með

Kórónaveiran er sennilega upprunnin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn. Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Einkenni geta líkst kvefi en einnig valdið alvarlegum veikindum.

Verið er að byggja tvo nýja spítala í Wu­han til þess að bregðast við nýjum smitum og hafa lækna­t­eymi hersins verið send á svæðið. Mikið eftir­lit er með fólki í Kína og er fylgst virki­lega vel með þeim sem eru að ferðast til þess að reyna að koma í veg fyrir út­breiðslu.

Forsvarsmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar greindi frá því á fimmtudaginn að neyðarástand væri í Kína en of snemmt væri að tala um neyðarástand á hnattrænum skala. Engin tilfelli hafa komið upp hér á landi en allir þeir sem sýna merki um öndunarfærasýkingu og hafa verið í Wuhan síðustu tvær vikur þurfa að gangast undir læknisfræðilegt mat á Keflavíkurflugvelli.