Minnst þúsund eru látnir og 1500 særðir eftir að kröftugur jarð­skjálfti skall í Paktika-héraði í Afgan­istan í nótt. Leið­togi Tali­bana, Hibatullah Ak­hundzada, segir að hundruð heimila hafi hrunið í skjálftanum og býst við því að tala látinna muni fara hækkandi, að sögn BBC.

Um er að ræða ban­vænasta jarð­skjálftann í Afgan­istan í tvo ára­tugi en skjálftar finnast þar reglu­lega og sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sam­einuðu þjóðunum hafa rúm­lega 7000 manns látist í jarð­skjálftum í Afgan­istan undan­farinn ára­tug.

Skjálftinn skall um 44 kíló­metra frá borginni Khost í suð­austur Afgan­istan rétt eftir 1:30 að staðar­tíma í nótt. Skjálftinn var 6.1 á stærð og átti upp­tök sín um 51 kíló­metra neðan­jarðar.

Upp­lýsinga­full­trúi Paktika-héraðs sagði BBC að 1000 manns hafi verið stað­fest látin og 1500 til við­bótar særðir. Björgunar­að­gerðir standa enn yfir og er fjölda manns leitað í húsa­rústum.

„Skjálftinn eyði­lagði hús ná­granna okkar. Þegar við komum heim voru margir látnir og særðir. Þau sendu okkur á spítalann. Ég sá mörg lík þar,“ sagði íbúi í Paktika í sam­tali við frétta­mann Reu­ters.

Jarð­skjálftar eiga það til að valda miklum skemmdum í Afgan­istan, sér­stak­lega í fá­tækari héruðum landsins þar sem hús eru gjarnan illa byggð og geta ekki staðið af sér skjálfta.

Skjálftinn fannst yfir rúm­lega 500 kíló­metra svæði á milli Afgan­istan, Pakistans og Ind­lands. Við­staddir hafa sagst hafa fundið fyrir skjálftanum í höfuð­borginni Kabúl og höfuð­borg Pakistans, Isla­ma­bad.