750 þúsund manns hafa nú látist af völdum CO­VID-19 í heiminum, sam­kvæmt tölum sem Johns Hop­kins-há­skólinn í Baltimor­e í Banda­ríkjunum heldur utan um.

Tæp­lega helmingur stað­festra dauðs­falla hafa orðið í fjórum löndum: Banda­ríkjunum, Brasilíu, Mexíkó og Ind­landi. Sam­kvæmt tölum Johns Hop­kins-há­skólans hafa 166.118 látist í Banda­ríkjunum og rúm­lega 104 þúsund í Brasilíu. Rúm­lega 54 þúsund hafa látist í Mexíkó og 47 þúsund á Ind­landi.

Kórónu­veiran heldur á­fram að láta að sér kveða í mörgum löndum og í dag voru stað­fest tæp­lega 2.700 smit í Frakk­landi. Það er mestur fjöldi á einum sólar­hring frá því að far­aldurinn náði há­marki þar um miðjan apríl­mánuð.

Þó að fjöldi til­fella fari vaxandi í Frakk­landi virðist til­fellum þar sem leggja þarf sjúk­linga inn á spítala fara fækkandi. Er nú svo komið að færri en 5.000 liggja á sjúkra­húsi í Frakk­landi með veiruna en það hefur ekki gerst síðan um miðjan mars.

Heil­brigðis­yfir­völd telja að það megi rekja til fleiri smita nú hjá ungu fólki en ó­lík­legra er að það þurfi að leggjast inn á sjúkra­hús en þeir sem eldri eru.