Tala látinna vegna gasprengingar sem átti sér stað í miðborg Parísar jókst í dag en björgunarsveitarmenn fundu lík konu í rústum bygginga sem hrundu í gær, að því er fram kemur á BBC. Að minnsta kosti tólf manns eru særðir eftir sprenginguna sem var afar öflug og átti sér stað í bakaríi í borginni. 

Slökkviliðsmenn voru þegar á vettvangi þegar sprengingin átti sér stað vegna gasleka og eins og áður hafði komið fram létust tveir slökkviliðsmenn auk spænsks ferðamanns en sprengingin var það öflug að höggbylgja myndaðist og vöknuðu íbúar í nærliggjandi hverfum við sprenginguna.

Sjá einnig: Tveir slökkviliðsmenn létust í sprengingunni

Sprengingin er til rannsóknar yfirvalda og er litin gífurlega alvarlega augum en talið er líklegast að um slys sé að ræða þó ekkert sé útilokað, að því er fram kemur í tilkynningu yfirvalda.

Í gær tilkynntu yfirvöld að að minnsta kosti einnar manneskju væri saknað en ekki hefur verið staðfest hvort að sú kona sem fannst látin í dag hafi verið umrædd manneskja.