Að minnsta kosti 45 hafa nú látist í Suður-Afríku í mót­mælum til stuðnings fyrr­verandi for­seta landsins, Jacob Zuma, sem gaf sig fram til lög­reglu í síðustu viku til að af­plána 15 mánaða fangelsis­vist. Ó­eirðirnar eru að mestu bundnar við tvö héruð þar sem Zuma nýtur mest stuðnings.

Yfir­völd hafa kallað eftir ró í landinu en að sögn for­seta Suður-Afríku, Cyril Ramap­hosa, sem tók við for­seta­em­bættinu af Zuma, er um for­dæma­laus mót­mæli að ræða, allt frá því að að­skilnaðar­stefnan var af­numin í Suður-Afríku fyrir 27 árum.

Tíu létust vegna troðnings

Herinn var kallaður út í gær vegna málsins og hafa á áttunda hundruð þegar verið hand­tekin. Víða í héruðunum KwaZulu-Natal og Gauteng, þétt­býlustu héruðum landsins, brutust mót­mælendur inn í verslanir, lokuðu vegum og kveiktu í bílum.

Meðal þeirra sem létust var 15 ára gamall drengur sem var skotinn í bringuna með gúmmí­kúlu. Þá létust tíu vegna troðnings þegar ó­eirðar­seggir brutust inn í verslunar­mið­stöð í út­hverfi í Jóhannesar­borg. Fjórir lög­reglu­menn hafa einnig slasast í ó­eirðunum.

Sakaður um spillingu í embætti

Líkt og áður segir gaf Zuma sig fram til lög­reglu í síðustu viku en hann var í lok júní dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir að neita að mæta fyrir dóm­stóla til þess að svara spurningum um meinta spillingu hans meðan hann sat sem for­seti árin 2009 til 2018.

Þetta er í fyrsta sinn sem fyrr­verandi for­seti hefur verið dæmdur í fangelsi frá því að að­skilnaðar­stefnan var af­numin í Suður-Afríku en Zuma á einnig yfir höfði sér fleiri á­kærur fyrir spillingu.