Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur hjá Líf og Sál segir að samræður þingmannanna sex á Klaustur bar þann 20 . nóvember sé hægt að flokka sem andlegt ofbeldi. 

Hún segir að afleiðingar slíks ofbeldis geti oft verið lúmskari en afleiðingar líkamlegs ofbeldis og að konur fari oft verr út úr slíku ofbeldi.

„Svona tal er yfirleitt flokkað sem andlegt ofbeldi. Það er engum blöðum um það að fletta,“ segir Þórkatla í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Lilja lýsti afleiðingum vel

Þórkatla segir að einkenni og afleiðingar andlegs ofbeldis fari eftir alvarleika máls hverju sinni.

„Ef maður upplifir atvikið sem alvarlegt og alvarlega aðför að öryggi manns, það getur verið að orðspori manns, sjálfsvirðingu, líkamlegt öryggi, þá eru afleiðingarnar ýmist konar streitu einkenni. Þau geta verið alvarleg. Svo sem kvíði og svefnraskanir. Það geta einnig verið líkamleg einkenni eins og hjartsláttur, verkir, verkkvíði, félagsfælni og ýmis afbrigði ótta,“ segir Þórkatla. 

Hún segir að áhrif andlegs ofbeldis séu töluvert lúmskari en líkamlegs ofbeldis. 

Mér fannst Lilja Alfreðsdóttir lýsa því ágætlega í Kastljósviðtali fyrr í vikunni að afleiðingarnar geti svo lítið komið í bakið á manni. Maður heldur kannski að maður standi föstum fótum í sinni tilveru, en svo gerist eitthvað og þá áttar maður sig á að maður er marinn andlega. Það sést ekki utan á fólki,“ segir Þórkatla.

Hún segir að það sé oft talsverð vinna fyrir þá sem eru beittir slíku ofbeldi að skýra út af hverju þeim líði illa og það geti bætt ofan á álagið sem fylgi slíku ofbeldi. Að viðurkenna að manni líði illa og gera ráðstafanir svo manni líði betur. 

Konu fari verr út úr áreitni

Þórkatla segir að það andlega ofbeldi sem átti sér stað á Klaustur Bar sé eitthvað sem megi skilgreina sem kynbundið eða kynferðislegt ofbeldi. Hún segir að konur fari almennt talsvert verr út úr kynferðislegri áreitni en karlar. 

„Það sem konur eiga oft almennt séð í erfiðleikum með að útskýra fyrir karlmönnum, ekkert endilega í þessum aðstæður, en almennt séð, er hvernig öryggistilfinningu þeirra er ógnað þegar karlmenn taka sér í munn svona „aggressív“ orð um þær og tala um þær á þennan niðurlægjandi máta,“ segir Þórkatla. 

Ein ástæða sé að konur eru meðvitaðri en karlmenn almennt um líkamlegan aflsmun á milli kynjanna. 

„Þó við séum ekki alltaf að tala um það eða að skýra alla hluti með því að varpa honum upp. Þá erum við meðvitaðri um þennan líkamlega aflsmun en karlar. Það litar oft viðhorf kvenna og upplifun kvenna af andlegu ofbeldi frá körlum. Við erum líkamlega minnimáttar,“ segir Þórkatla. 

Það á ekki að misbjóða fólki á vinnustað 

Þórkatla hefur mikla reynslu af því í starfi sínu að fara inn á vinnustaði til að ræða óheilbrigt andrúmsloft eða einelti á vinnustað og þau hafi alltaf ákveðin viðmið í starfi sínu.  

Spurð út í atvikið á Klaustur bar segir Þórkatla að lýsing bæði starfsfólks og annarra þingmanna á að andrúmsloft á þingi sé eitrað og erfitt eftir atvikið séu mjög eðlileg viðbrögð við mjög óeðlilegu atviki.  

„Við erum mjög upptekin af því í vinnu okkar að benda á að það megi ekki misbjóða fólki á vinnustað. Að það megi ekki misbjóða tilfinningu þeirra um bæði andlegt og líkamlegt öryggi. Það er í anda laga um hollustuhætti sem skýrir þetta mjög vel út. Þar er farið yfir þessar lokuðu aðstæður sem eru á vinnustað. Fólk verður að mæta til að sinna skyldum sínum og gera það sem maður er ráðinn til að gera. Sama hvort maður er ráðinn til þess eða kjörinn. Það skiptir ekki mestu máli. Þess vegna þarf maður að geta treyst því að umhverfið sé öruggt. Að maður verði ekki niðurlægðu, manni verði ekki ógnað og sjálfsvirðingu manns ekki misboðið,“ segir Þórkatla.

Hún segir að sé farið yfir þessi mörk hafi það áhrif á þann sem fyrir því verður og geti smitast út á allan vinnustaðinn.  

Baktal ávallt óþægilegt og sérstaklega þegar maður er ekki á staðnum 

Hvað varðar atvikið á Klaustur Bar og afleiðingar þess á þá sem rætt var um segir Þórkatla að málið sé eflaust sérstaklega snúið því þau hafi ekki sjálf verið á staðnum.  

„Það er snúið að geta ekki verið á staðnum til að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það er „frústrerandi“ og óþægilegt að persóna manns sé ötuð auri. Ég held við þekkjum það öll að hafa heyrt eitthvað ljótt um okkur eða okkar persónu. Eitthvað baktal eða það er eitthvað fært í stílinn. Það slær mann oft út af laginu og manni finnst það óþægilegt. Þá er ég nú samt að tala um vægari myndir,“ segir Þórkatla að lokum.