Talið er að Evrópu­sam­bandið muni síðar í dag ráð­leggja með­lima­ríkjum sínum að tak­markanir verði settar á ný á komu ferða­manna frá Banda­ríkjunum og fimm öðrum löndum en þetta hefur CNN eftir heimildar­manni sem þekkir til málsins.

Tak­markanir myndu þá ná til óbólu­settra ein­stak­linga en um er að ræða sótt­kví og skimun fyrir þá sem ferðast til með­lima­ríkja ESB auk þess sem ráð­lagt er gegn ó­nauð­syn­legum ferða­lögum. Ef engin með­lima­ríki mót­mæla er talið að reglurnar muni taka gildi í dag.

Síðast­liðinn júní á­kvað leið­toga­ráð Evrópu að af­létta tak­mörkunum sem voru í gildi fyrir ferða­menn frá 14 löndum, þar á meðal Banda­ríkjunum, en í ljósi þess að far­aldurinn er í upp­sveiflu í Banda­ríkjunum og víðar var á­kveðið að endur­skoða þá á­kvörðun.

Önnur lönd sem talið er að Evrópu­sam­bandið muni setja tak­markanir á síðar í dag eru Ísrael, Kós­ó­vó, Svart­fjalla­land, Líbanon og Norður-Makedóníu.

Banda­ríkja­menn halda hins vegar enn til streitu ferða­banni á ó­nauð­syn­legar ferðir Evrópu­búa til landsins.

Bólusetningar dala í ákveðnum ríkjum

Líkt og áður segir er Co­vid-far­aldurinn í mikilli upp­sveiflu í Banda­ríkjunum en Ant­hony Fauci, sótt­varna­læknir Banda­ríkjanna, sagði í við­tali við CNN í gær að allt að 100 þúsund manns gætu látist fyrir desember, til við­bótar við þá tæp­lega 638 þúsund sem hafa látist vegna Co­vid-19 hingað til.

„Það sem við erum að ganga í gegnum núna er bæði al­gjör­lega fyrir­sjáan­legt, en einnig al­gjör­lega af­stýran­legt. Við vitum að við höfum úr­ræði með bólu­efnunum til að snúa þessu við,“ sagði Fauci í við­talinu.

Veru­lega mis­jafnt er eftir ríkjum hversu margir hafa verið bólu­settir en hlut­fallið er til að mynda undir 50 prósent í Suður-Karó­línu, Lou­isiana og Texas, þar sem fjöl­margir hafa þurft að leggjast inn og súr­efnis­skortur er í nánd. Á lands­vísu hafa ríf­lega 52 prósent verið full­bólu­sett.