Sótt­varna­reglur sem voru í gildi yfir há­tíðirnar höfðu minni á­hrif á jóla­hald lands­manna en þeir höfðu talið að þær myndu gera. Þetta sýnir nýr Þjóðar­púls Gallup. Einnig voru fleiri já­kvæðir í garð að­gerðanna þegar þeir litu til baka eftir há­tíðirnar heldur en fyrir jól.

Nærri 60 prósent lands­manna töldu fyrir jól að sótt­varna­reglur hefðu mikil á­hrif á jóla­hald þeirra. Eftir jól voru þeir þó ekki nema tæp­lega 46 prósent sem töldu að reglurnar hefðu haft mikil á­hrif á há­tíða­höldin. Einn af hverjum fimm taldi þá fyrir fram að reglurnar hefðu lítil á­hrif á jóla­haldið en eftir há­tíðirnar voru þeir orðnir fleiri - ríf­lega 37 prósent þjóðarinnar.

Niðurstöður könnunar Gallup. Spurt var um hve mikil áhrif sóttvarnareglur hefðu haft á jólahald landsmanna.
Skjáskot/Gallup

Flestir vildu fá að hitta fleiri


Þegar kemur að af­stöðu fólks til að halda jólin sam­kvæmt þeim tak­mörkunum sem voru í gildi, það er tíu manna sam­komu­tak­mörkunum og tak­mark­mörkunum á opnunar­tíma veitinga­staða, varð hún einnig já­kvæðari eftir jól.

Hátt í þrír af hverjum tíu segja að þó að það hefði ekki haft nein á­hrif á smit­hættu eða út­breiðslu Co­vid-19 hefðu þeir kosið að halda jólin sam­kvæmt þeim reglum sem voru í gildi frekar en að hitta fleira fólk um jólin. Þó sögðust sjö af hverjum tíu hafa kosið að fá að hitta fleiri.

Þetta er já­kvæðari af­staða í garð að­gerðanna en fyrir jól en þá sögðust tæp­lega átta af hverjum tíu hafa kjósa að fá að hitta fleira fólk um jólin en að­eins um tveir af hverjum tíu sem sögðust myndu kjósa að halda jólin sam­kvæmt reglunum þó það hefði engin á­hrif á smit­hættu eða út­breiðslu far­aldursins.

Niðurstöður könnunar Gallup. Spurt var hvort fólk vildi fá að hitta fleiri yfir hátíðirnar en þágildandi sóttvarnareglur gerðu ráð fyrir, það er tíu manns.
Skjáskot/Gallup