Sóttvarnareglur sem voru í gildi yfir hátíðirnar höfðu minni áhrif á jólahald landsmanna en þeir höfðu talið að þær myndu gera. Þetta sýnir nýr Þjóðarpúls Gallup. Einnig voru fleiri jákvæðir í garð aðgerðanna þegar þeir litu til baka eftir hátíðirnar heldur en fyrir jól.
Nærri 60 prósent landsmanna töldu fyrir jól að sóttvarnareglur hefðu mikil áhrif á jólahald þeirra. Eftir jól voru þeir þó ekki nema tæplega 46 prósent sem töldu að reglurnar hefðu haft mikil áhrif á hátíðahöldin. Einn af hverjum fimm taldi þá fyrir fram að reglurnar hefðu lítil áhrif á jólahaldið en eftir hátíðirnar voru þeir orðnir fleiri - ríflega 37 prósent þjóðarinnar.

Flestir vildu fá að hitta fleiri
Þegar kemur að afstöðu fólks til að halda jólin samkvæmt þeim takmörkunum sem voru í gildi, það er tíu manna samkomutakmörkunum og takmarkmörkunum á opnunartíma veitingastaða, varð hún einnig jákvæðari eftir jól.
Hátt í þrír af hverjum tíu segja að þó að það hefði ekki haft nein áhrif á smithættu eða útbreiðslu Covid-19 hefðu þeir kosið að halda jólin samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi frekar en að hitta fleira fólk um jólin. Þó sögðust sjö af hverjum tíu hafa kosið að fá að hitta fleiri.
Þetta er jákvæðari afstaða í garð aðgerðanna en fyrir jól en þá sögðust tæplega átta af hverjum tíu hafa kjósa að fá að hitta fleira fólk um jólin en aðeins um tveir af hverjum tíu sem sögðust myndu kjósa að halda jólin samkvæmt reglunum þó það hefði engin áhrif á smithættu eða útbreiðslu faraldursins.
