Gera má ráð fyrir að aukning verði á innlögnum vegna COVID-19 næstu daga og vikur að sögn forstjóra Landspítala en átján eru nú inniliggjandi á spítalanum, þar af þrír á gjörgæslu, og hafa 35 þurft að leggjast inn í þessari bylgju faraldursins. Landspítali er nú á hættustigi, annað af þremur viðbragðsstigum.

„Það má búast við að það verði töluverð aukning á innlögnum á næstu dögum og vikum ef að fyrri reynsla og okkar líkanagerð er einhvers virði, sem við gerum ráð fyrir að sé,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í samtali við Fréttablaðið. Mikil óvissa er enn til staðar og óljóst hversu stór núverandi bylgja verður.

Tæki og rými ekki það sem vandamálið snýst um

Aðspurður um hver hámarksgeta spítalans sé, með tilliti til rýma og tækjabúnað, segir Páll það ekki vera takmarkandi þátt. „Við höfum ekki stærstar áhyggjur af því, takmarkandi þátturinn verður alltaf mönnun. Síðan auðvitað þurfum við að koma fólki fyrir, þannig að fleiri rými þarf, en það er mönnun öðru fremur sem að þetta snýst um.“

„Síðan er auðvitað ýmislegt hægt að gera til að leysa krísu í einhverja daga, en það er annað en það sem er hægt að gera vikum og mánuðum saman. Fólk getur alltaf unnið á sig í einhverju áhlaupi en svo sígur það í mjög fljótt,“ segir Páll enn fremur og bætir við að það sé þungbært að þurfa að biðla til fólks að koma úr sumarleyfi þar sem að það á sannarlega skilið sína hvíld.

Þarf að tryggja að spítalinn geti sinnt sínu hlutverki

Spítalinn starfar nú líkt og áður segir á hættustigi en er við neyðarástand og hefur reynst erfitt að manna gjörgæsludeildina, auk þess sem áskorun er að tryggja mönnun á öðrum bráðadeildum og bráðamóttakan er undir miklu álagi.

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Páll að við stæðum frammi fyrir tveimur erfiðum kostum, annars vegar að beita hörðum sóttvarnaaðgerðum, sem væru þá að koma og fara í framtíðinni, eða að láta faraldurinn geisa, sem spítalinn óttaðist að geta ekki ráðið við til lengdar, ef faraldurinn versnaði.

„Við þurfum að ná tökum á þessari bylgju núna, hvernig sem það er hægt og þurfum að ná tökum á henni hratt,“ sagði Páll á fundinum og bætti við að á sama tíma þyrfti að efla viðbragð heilbrigðiskerfisins til lengri tíma, sérstaklega á Landspítala, þar sem ljóst er að við munum þurfa að lifa með faraldrinum áfram.

Er ekki ljóst að það þurfi að leggja meira fjármagn í spítalann til þess að hann geti tekið á stöðunni?

„Jú, svo teljum við vera og við höfum sagt það í mörg ár og það er skilningur á því. Ég tel nú að stjórnvöld hafi verið að gera það, sannarlega, en það þarf að leggja í enn frekar á næstu árum og efla getu spítalans til að bregðast við óvæntum hlutum og tryggja að hann geti sinnt sínu hlutverki sem allra best, þótt á gefi.“