Formaður Þroskahjálpar segir að samtökin taki undir kröfu mannréttindasamtakanna Amnesty International, um að látið verði af einangrunarvist fatlaðra einstaklinga í gæsluvarðhaldi.

Í nýrri skýrslu Amnesty er greint frá óhóflegri notkun einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi. Samtökin hvetja yfirvöld til að breyta verklagi og reglum og að einangrunarvist barna og fatlaðra einstaklinga verði alfarið bönnuð.

„Þessi skýrsla virkar trúverðug og kemur frá aðila sem nýtur virðingar og það er fullt tilefni til að taka hana alvarlega. Það er engin spurning um það í okkar huga,“ segir Árni Múli Jónasson, formaður Þroskahjálpar og lögmaður.

Hann segir skýrsluna áfellisdóm yfir réttarvörslukerfinu, lögreglunni, ákæruvaldi og fangelsismálayfirvöldum.

„Það er allt réttarvörslukerfið undir og þetta hlýtur að kalla á skoðun, bæði hjá réttarvörslukerfinu og dómsmálakerfinu, að tryggja að meginreglur réttarríkisins séu viðhafðar því það er margt þarna sem bendir til þess að svo sé ekki,“ segir Árni Múli.

Ítarlega er fjallað um það í skýrslunni hvaða áhrif það hefur á einstaklinga að vera í einangrun og hvaða áhrif það getur haft á þá ábyrgð sem þeir axla í þeim málum sem þeir eru grunaðir í.

Í skýrslunni segir einstaklingur sem var í einangrun að skorturinn á mannlegum samskiptum hafi valdið því að hann sagði meira en hann hafði ætlað sér við lögregluna. Þrátt fyrir að einangruninni sé ekki beint ætlað að þrýsta á játningu þá geri hún það óhjákvæmilega.

Árni Múli segir að sérstaklega út frá sjónarhorni fatlaðs fólks sé þetta alvarlegt. Hann bendir á að Ísland sé búið að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem er að finna fjölmörg ákvæði sem hafa þýðingu í þessu samhengi.

„Um það hvernig eigi að standa að málum í réttarvörslukerfinu sem tekur tillit til fatlaðs fólks og laga sig að þörfum þess. Að það sé passað að einstaklingar með fötlun fái stuðning og þá vernd sem þeir eiga skilið og rétt á samkvæmt samningunum,“ segir Árni.

Að sögn Árna sér hann ekki hvað réttlæti að setja fatlaða einstaklinga í aðstæður sem fylgi einangrun.

„Og þá tala ég helst um einstaklinga með þroskahömlun, einhverfa og fólk með geðfatlanir, sem augljóslega er mjög berskjaldað og viðkvæmt fyrir því að vera sett í þessar aðstæður sem fylgja einangrunarvist, með því tilfinningalega og líkamlega álagi sem því fylgir. Við lítum á þetta sem mjög stórt mál,“ segir Árni.

Kveðst Árni bíða viðbragða dómsmálaráðuneytis og réttarvörslukerfisins við niðurstöðum skýrslunnar og ábendingum sem henni fylgja.