Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að verja þrettán milljónum króna til verkefnisins UN Free & Equal sem skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna heldur utan um. Verkefninu er ætlað að vinna að útbreiðslu réttinda hinsegin fólks um allan heim.

„Hinsegin sambönd teljast enn glæpur í meira en þriðjungi ríkja heims. Með fjárframlaginu og áframhaldandi áherslu á réttindi hinsegin fólks í mannréttindaráðinu og þróunarsamvinnu leggjum við okkar lóð á vogarskálar í þeirri viðleitni að breyta þessu. Við kunnum að vera ólík, en öll eigum við að njóta sömu mannréttinda,“ segir Guðlaugur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Þá segir að framlagið sé í samræmi við áherslur Íslands í mannréttindaráðinu en ráðið fundar í dag í Genf í Sviss. Ísland var fyrir ári síðan kjörið til setu ráðinu og hefur réttindum hinsegin fólks iðulega verið haldið til haga í málatilbúnaði landsins í ræðum og yfirlýsingum.

Jafnréttismál eru efst á dagskrá í komandi fundarlotu mannréttindaráðsins. Sérstakur skýrslugjafi ráðsins um réttindi hinsegin fólks mun taka þátt í umræðunum en það embætti var sett á árið 2016.

Í tilkynningunni segir einnig að framlagið sé í samræmi við nýja stefnu Íslands í þróunarsamvinnu fyrir árin 2019-2023 og nýja skýrslu utanríkisráðuneytisins þar sem sú nálgun er mörkuð að allt starf landsins í þróunarsamvinnu sé mannréttindamiðað. Því fylgist Ísland grannt með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu.