Ríkisstjórnin ræddi ekki sóttvarnaraðgerðir á fundi sínum í dag en að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ætlar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að meta stöðuna yfir helgi. Heilbrigðisráðherra var ekki viðstaddur fundinn í dag.

„Í ljósi þess að staðan á faraldrinum er ekki nógu góð, við erum að sjá fjölgun tilfella bæði í gær og í dag, þá veit ég að ráðherrann hyggst doka við fram yfir helgi að meta stöðuna áður en næsta ákvörðun verður tekin.“

Núverandi aðgerði eru í gildi til miðvikudags næstkomandi. Katrín segir að ef staðan væri stöðug eða ef tilfellum hefði fækkað þá væri sennilega búið að ræða málin í ríkisstjórninni en í ljósi fjölgandi tilfella verður rætt nánar um stöðuna eftir helgi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir ræddi við heilbrigðisráðherra vegna fjölgandi tilfella og vildi taka stöðuna með ráðherra eftir helgi til að ná betur utan um umfang fjölgunarinnar.

Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær. Nýgengi innanlandssmita síðustu fjórtán daga hækkar á milli daga.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi í gær að merki væri um að faraldurinn sé að fara aftur af stað. Hann hefur nú sent heilbrigðisráðherra tillögur um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir en mögulega verða þær tillögur endurskoðaðar í ljósi stöðunnar.