Enn er þess beðið að hægt verði að taka skýrslu af þremur einstaklingum sem voru handtekin á hóteli í miðborg Reykjavíkur í gær með skotvopn og skotfæri á sér.
Sérsveit aðstoðaði við handtöku fólksins í gær um klukkan 20 en á þeim fundust einnig fíkniefni. Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Fréttablaðið í dag að engum hafi verið hótað eða staðið ógn af fólkinu en að málið muni skýrast betur þegar búið verður að taka skýrslu af þeim.
„Rannsóknarlögreglumaður er með málið á sinni könnu og mun taka skýrslu af þeim um leið og hægt er,“ segir Ásmundur.
Fram kom í dagbók lögreglunnar í morgun að þremenningarnir hafi verið vistuð í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.