Hafdís Sæland, verkefnastjóri hjá Origo, segir nýjan sýndarveruleikadómsal geta hjálpað þolendum ofbeldis. Dómsalurinn var hannaður sem lokaverkefni í tölvunarfræði, en hann er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Hafdís segir búnaðinn góðan undirbúning fyrir þolendur er komi að skýrslutöku fyrir dómi.

„Við erum ótrúlega ánægðar með að þetta úrræði sé komið í gagnið og vonum að það verði hluti af undirbúningi þolenda seinna meir þegar kemur að skýrslutöku fyrir dómi,“ segir Hafdís um dómsalinn sem hún, ásamt Edit Ómarsdóttur og Helgu Margréti Ólafsdóttur, hannaði og kynnti á formlegri opnun í vikunni.

Hafdís segir hugmyndina hafa kviknað fyrir tæpum þremur árum þegar þær voru í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík.

„Við vildum gera lokaverkefni sem skipti máli og gæti hjálpað lögreglunni. Við funduðum með lögreglunni og ríkislögreglustjóra og eftir mikla hugmyndavinnu sáum við að það var ótrúlega mikil þörf á sviði kynferðisbrota,“ segir Hafdís.

Hún leggur áherslu á að það hafi verið þeim mikilvægt að leggja sitt af mörkum og því hafi þær ákveðið að búa til dómsal í sýndarveruleika. „Við ræddum við ýmsa aðila, dómara, saksóknara, sálfræðinga og lögfræðinga, til að athuga hvort það væri grundvöllur fyrir slíku verkefni. Allir voru sammála um að við ættum að láta verða af þessu,“ segir Hafdís.

Spurð hvernig dómsalurinn virki segir hún þetta í formi hefðbundinna sýndarveruleikagleraugna. „Um leið og þú setur þau á þig birtist hurð á dómsal 402 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þegar gengið er inn sérðu réttargæslumanninn, saksóknarann, dómarann, sakborninginn og verjanda hans, þá sem venjulega eru þarna. Þá er hægt að átta sig á fjarlægðunum og þú getur gengið að vitnastúkunni, alveg eins og þú værir raunverulega stödd í salnum,“ segir Hafdís.

Til þess að gera þetta eins líkt raunveruleikanum og hægt er höfðu þær samband við dómara, sem sendi þeim upplýsingar um það orðfæri sem notað er í dómsal. „Þá er hægt að æfa sig, hvort sem það er að tala upphátt, tala við dómarann eða álíka. Svo er líka hægt að skoða sig um, eða þá fá að gera þetta nokkrum sinnum til að venjast umhverfinu. Þetta fer í raun bara eftir því hvað fólki finnst best.“

Hafdís telur að það að mæta í skýrslutöku geti valdið miklum kvíða hjá þolendum. Því sé þetta úrræði mikilvægt. „Ég hef sjálf lent í kynferðisofbeldi og þurfti að fara í gegnum dómsmál þegar ég var 15 ára. Ég var ofsalega stressuð og hugsaði um það á hverjum einasta degi, hvernig þetta yrði, hverjir yrðu þar og hvað ég þyrfti að segja. Það var bara ótrúlega kvíðavaldandi,“ segir hún.

Þjónustan sjálf kemur til með að fara fram hjá ríkislögreglustjóra, en búnaðurinn er staðsettur þar. „Við höfum fengið fjölda fyrirspurna um bókanir og erum í samtali við ýmsa samstarfsaðila. Við vonum bara að fólk taki vel í þetta og að þjónustan nýtist sem flestum,“ segir Hafdís.

Hægt er að kynna sér þjónustuna á heimasíðunni statum.is.