Yfirvöld ætla ekki að taka upp neinar sérstakar aðgerðir á landamærum vegna mögulegra áhrifa útbreiðslu Covid-19 í Kína hér á landi eftir að landamæri landsins voru opnuð á ný.
Það kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar á föstudag minnisblað sóttvarnalæknis til ráðherra um möguleg áhrif útbreiðslu Covid-19 í Kína hér á landi.
Að mati sóttvarnalæknis mæla fagleg rök ekki með því að taka upp aðgerðir á landamærum hér til að vernda lýðheilsu og heldur ekki aðgerðir sem beinist sérstaklega að Kína sem brottfararlandi.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir tilmæli sóttvarnalæknis séu byggð á bæði niðurstöðu fundar neyðarráðs Evrópusambandsins (IPCR) og fundi aðildarríkja sambandsins 29. desember og 3. Janúar. Í framhaldi af þessum fundum voru gefin út tilmæli sem miða að því að samræma nálgun landa vegna útbreiðslu Covid-19 í Kína. Tilmælin eru ekki bindandi og gert ráð fyrir að lönd aðlagi þau að aðstæðum sínum.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis, Guðrúnar Aspelund, eru tilmælin rakin og rök sóttvarnalæknis fyrir því mati að ekki séu faglegar ástæður til þess að grípa til aðgerða á landamærum hér á landi. Þar kemur enn fremur fram að landlæknisembættið muni uppfæra og dreifa viðeigandi leiðbeiningum til ferðamanna.
Sóttvarnalæknir segir þó að skoða mætti það að koma af stað sýnatöku hjá slembiúrtaki allra komufarþega í Keflavík ef vísbendingar koma fram erlendis frá um nýtt afbrigði sem fylgjast ætti með.
„Vissulega getur verið hagur af samræmdri nálgun á vettvangi ESB og Schengen-tengdra ríkja til að draga úr áhættu sem stafar af mismunandi ráðstöfunum á svæði án innra landamæraeftirlits en tilmæli ESB gera ráð fyrir að lönd aðlagi þau að sínum aðstæðum eins og er,“ segir Guðrún í minnisblaði sína og að möguleikinn sé alltaf fyrir hendi að aukinn fjöldi ferðamanna frá Kína, sem ekki hafa fengið sambærilega vörn með bólusetningum og íbúar hér, gæti leitt til aukins fjölda með alvarleg COVID-19 veikindi hérlendis, sem gæti aukið álag á heilbrigðiskerfið og ekki síst gjörgæsludeildir.
„Slíkar áhyggjur virðast þó eins og er meira byggðar á óvissu um upplýsingar frá Kína heldur en sannfærandi rökum að ferðamenn þaðan muni umfram aðra valda auknu álagi. Þannig tel ég ekki réttlætanlegt að grípa til verulegra inngripa gegn ferðamönnum frá Kína nú umfram aðra ferðamenn sem hingað koma,“ segir Guðrún og að á næstu vikum sé líklegt að það komi fram upplýsingar sem gefa tilefni til að endurskoða þetta áhættumat og tillögur um aðgerðir hér.