Ríkis­stjórn Ís­lands sam­þykkti á fundi sínum í morgun að taka á móti 35 til 70 manns frá Afgan­istan, til við­bótar við þann hóp sem tekið var á móti í haust, vegna á­standsins sem ríkir í landinu í kjöl­far valda­töku tali­bana.

Frá þessu er greint í til­kynningu frá for­sætis­ráðu­neytinu en þar kemur fram að í haust hafi komið alls 78 ein­staklingar til landsins.

Þar segir einnig að eftir valda­töku Talí­bana hafi lífs­skil­yrði í Afgan­istan farið ört versnandi undan­farna mánuði og að ríkis­stjórnin telji brýnt að bregðast frekar við því.

Flótta­manna­nefnd hefur verið falið að út­færa til­lögu ríkis­stjórnarinnar en horft verður sér­stak­lega til ein­stæðra kvenna í við­kvæmri stöðu sem hafa náin tengsl við Ís­land og barna þeirra. Þá segir að erfitt sé að meta ná­kvæman fjölda sem tekið verður á móti þar sem hann fer eftir fjöl­skyldu­sam­setningu.

Eftir valda­töku Talí­bana sam­þykkti ríkis­stjórnin á fundi sínum þann 24. ágúst 2021 að að­stoða og taka á móti til­greindum hópi Af­gana með tengsl við Ís­land. Að til­lögu flótta­manna­nefndar var sér­stök á­hersla lögð á ein­stak­linga sem unnu með eða fyrir At­lants­hafs­banda­lagið, fyrr­verandi nem­endur við Al­þjóð­lega jafn­réttis­skólann á Ís­landi (GRÓ-GEST) og ein­stak­linga sem áttu rétt á fjöl­skyldu­sam­einingu eða voru þegar komnir með sam­þykkta um­sókn um dvalar­leyfi.

Í til­kynningunni segir að sökum fjöl­skyldu­sam­setningar hópanna var erfitt að á­ætla fjöldann sem um­ræddar að­gerðir náðu til en var gert ráð fyrir að hann yrði um 90 til 120 manns en alls komu 78 ein­staklingar.

Fimm manna fjöl­skylda þáði ekki boð um að flytjast til Ís­lands og fjöru­tíu ein­staklingar hafa fengið að dveljast í öðrum ríkjum.