Búast má við umferðartöfum á Holtavörðuheiði til allt að hálf fjögur í dag vegna vinnu við að ná upp flutningabíl sem valt út af veginum í gærkvöldi. Greint er frá því á veg Vegagerðarinnar að lögregla og björgunarsveit stjórni umferð þar á meðan unnið er að því að reisa bílinn við. 

Björgunarsveitin Húnar var kölluð á vettvang í gær til að aðstoða lögreglu við að tryggja öryggi vegfarenda eftir að vörubíll fór á hliðina og út af veginum. Talsverð hálka hefur verið á heiðinni undanfarna daga, og er enn.

Björgunarsveitin ráðin í að losa bílinn

Kristján Svavar Guðmundsson hjá björgunarsveitinni Húnum segir í samtali við Fréttablaðið að sveitin hafi verið ráðin í björgunarstarf af fyrirtækinu sem á bílinn til að losa hann. Hann segir að í bílnum hafi verið almennar vörur, svo sem kjöt- og fiskivörur.

Hann segir að bíllinn hafi verið kominn á hliðina en hann viti ekki nákvæmlega hvað hafi orðið til þess eða af hverju hann fór út af.

Aðstæður góðar í dag

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra eru aðstæður í dag góðar til að reisa bílinn við.

„Það er svolítið vesen að ná honum upp. Það er búið að snjóa og það er hálka en annars er allt í lagi veður,“ segir Guðrún hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra í samtali við Fréttablaðið í dag.

Upplýsingar um færð vega eru aðgengilegar á heimasíðu Vegagerðarinnar.