Nauðsynleg gögn vegna manndrápsins á Ólafsfirði hafa ekki skilað sér. Beðið er eftir niðurstöðum úr krufningu og frá DNA-sýnum.

Þetta staðfestir Eyþór Þorbergsson, varasaksóknari hjá lögregluembættinu á Norðurlandi eystra.

„Það kom í ljós að endanleg niðurstaða krufninganna var ekki komin. Þegar lík eru krufin eru tekin alls konar sýni sem þarf að rannsaka og það var ekki búið,“ segir Eyþór.

Þá segir Eyþór að niðurstöður úr DNA-sýnum sem tekin voru vegna rannsóknarinnar og send til Svíþjóðar, séu ekki komnar til baka.