„Við könnumst við þetta, framleiðslugeta bílaframleiðenda hefur aðeins tafið afhendingu nýrra bíla,“ segir Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri BL, aðspurður hvort áhrif heimsfaraldursins á framleiðslugetu bílaframleiðenda hefðu haft áhrif á starfsemi fyrirtækisins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa íslensku bílaumboðin að einhverju leyti glímt við skort á framboði nýrra bíla, miðað við það sem þekktist fyrir daga heimsfaraldursins fyrir tveimur árum.

Fjölmargir bílaframleiðendur þurftu að loka verksmiðjum sínum um tíma á síðasta ári, en um leið hafa verksmiðjurnar sem framleiða íhluti sem fara í bílana þurft að loka. Fyrir vikið eru tafir á afhendingu bíla víða um heiminn.

„Salan hefur gengið vel enda er BL með fjölbreytt vöruúrval og Íslendingar í ferðahug eru margir að endurnýja bílaflotann sinn, en það hafa alveg orðið seinkanir vegna framleiðsluörðugleika hjá sumum framleiðendum þar sem kóróna­veiran er að setja strik í reikninginn,“ segir Sigurjón, sem kveðst hafa heyrt sambærilegar sögur frá öðrum umboðum þegar hann var spurður út í það.

„Það kannast allir að einhverju leyti við þetta að mér finnst, þetta er náttúrlega vandamál á heimsvísu, þessi áhrif heimsfaraldursins á framleiðslugetu.“

Jóhannes Jóhannesson, staðgengill framkvæmdastjóra hjá Bílgreinasambandinu, kannast við þessar sögur.

„Staðan er auðvitað mismunandi á milli bílaumboða. Sum þeirra eru að glíma við skort á framboði bíla en þau eiga það öll sameiginlegt að vera búin að leggja inn stórar pantanir“ segir Jóhannes.

Að sögn Jóhannesar er áhuginn til staðar og fleiri bílar hefðu verið seldir ef þeir stæðu til boða.

„Staðreyndin er hins vegar sú að það er framleiðsluskortur á heimsvísu á nýjum bílum. Ég veit að bílaleigurnar væru flestar til í fleiri bíla, en þeir eru ekki til staðar,“ segir Jóhannes, sem hefur heyrt af bílaumboðum þar sem lagerinn er aðeins þriðjungur af því sem venjan er.

„Það eru færri bílar í höfn en áður og bílaframboðið sem er til staðar minna en nokkru sinni áður vegna skorts á framleiðslu. Þetta er orðið meira eins og það sem þekkist erlendis þar sem einstaklingar koma og panta bílinn í stað þess að bíllinn sé til staðar í vörugeymslu.“