Veitingastaðurinn Múlakaffi í Hallarmúla hefur í gegnum áratugina sinnt þeim sem vilja fá sitt saltkjöt á sprengidag og sem fyrr var þar fullt út úr dyrum í hádeginu.

„Ég er nú ekki með nákvæma tölu á þeim sem eru búnir að koma í saltkjöt og baunir í dag en þetta eru örugglega á bilinu 200-300 manns,“ segir Halldór Ásgeirsson sem stendur sveittur vaktina í eldhúsinu.

Hann segir aðspurður að þetta séu síður en svo alltaf sömu andlitin ár eftir ár þannig að endurnýjunin virðist vera nokkuð stöðug í hópi þeirra sem leggja allt undir og belgja sig út af saltkjötinu, í það minnsta einu sinni á ári.

„Við fáum mikið af fólki sem við höfum aldrei séð áður,“ segir Halldór og sér í þessu vísbendingu um að tískukúrar eins og til dæmis ketó hafi ekki teljandi áhrif á neyslu fólks á saltkjöti og baunum, en þær eru vitaskuld bannfærðar í ketó og brimsalt kjötið vitaskuld eitur í beinum grænkera.

„Það er svo alltaf meira að gera hjá okkur á kvöldin á þessum degi enda er þetta nú kannski frekar kvöldmatur og við byrjum aftur klukkan fimm í dag,“ segir Halldór og bendir enda á að það sé ekkert smáræði sem matargestir hesthúsi hjá honum á sprengideginum.   

„Þetta eru einhver 900 kíló sem fara af saltkjöti, 450 lítrar af baunum og 300 kíló af rófum.“

Og hefur aldrei komið fyrir að einhver lognist út af ofan í diskinn sinn. Fái hreinlega bara slag? „Nei, við höfum verið alveg laus við það.“