Alls hafa 1.591 einstaklingur látist í umferðinni á Íslandi frá því fyrsta banaslysið var skráð hér á landi í ágúst 1915.
Það sem af er árinu 2021 hafa sjö einstaklingar látið lífið í umferðinni hérlendis, jafn margir og allt árið þar á undan, sem er undir meðaltali síðustu áratuga, en undanfarin tíu ár hafa að meðaltali tólf manns farist í umferðinni og áratuginn þar á undan misstu landsmenn að meðaltali 20 manns á ári á götum úti.
Á þessum umrædda áratug, frá 2001 til 2010, slösuðust 3.374 alvarlega í umferðinni hér á landi, eða ríflega tíu sinnum fleiri en þeir sem létust í bílslysum, en samkvæmt þeim tölum má ætla að frá fyrstu skráningu umferðarslyss hér á landi árið 1950, hafi allt að sextán þúsund manns slasast alvarlega í umferðinni.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samgöngustofu í tilefni af því að á sunnudag er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Tilgangur hans er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni, en ekki hvað síst að þakka viðbragðsaðilum fyrir veitta hjálp og björgun á slysstað.
Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á hverjum degi, en það svarar til 1,3 milljóna manna á ári.
Í tilefni dagsins leggur Samgöngustofa áherslu á umfjöllun um mikilvægi öryggisbelta í umferðinni, en athygli vekur að Ísland er í sautjánda sæti í Evrópu í bílbeltanotkun. Allar aðrar Norðurlandaþjóðir eru ofar Íslandi á þeim lista. Frakkar, Þjóðverjar og Bretar eru duglegastir að nota beltin, um 98 prósent íbúa þar nota þau að staðaldri, en notkunin hér á landi er um 92 prósent.
Samkvæmt könnun sem Samgöngustofa hefur gert eru nú um 25 þúsund manns sem láta það gerast að nota ekki öryggisbelti, en sérfræðingar stofunnar hafa í því efni bent á að sá sem notar ekki bílbelti er í um átta sinnum meiri hættu á að lenda í banaslysi en sá sem spennir það á sig. Þeir vitna þar í rannsóknir sem sýna enn fremur að í langflestum tilfellum hefði viðkomandi bjargast hefði hann notað beltin.
Táknrænar minningarathafnir verða haldnar um land allt á morgun í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og verður flestum streymt. Hægt er að nálgast upplýsingar um þær á vefnum minningardagur.is.