Alls eru tæplega 400 börn í sóttkví vegna smita sem greindust í síðustu viku á sjö leikskólum og á þremur frístundaheimilum í Reykjavík. 115 starfsmenn eru í sóttkví vegna sömu smita.

321 barn og fullorðnir eru í sóttkví vegna sjö smita á leikskólum og 192 börn og fullorðnir vegna smita á þremur frístundaheimilum.

Gera má ráð fyrir því að fjöldinn í sóttkví sé talsvert meiri vegna þess að samkvæmt reglum verða foreldrar yngstu barnanna að fylgja þeim í sóttkví.

Fjöldinn er því í minnsta lagi um 900 en líklega er um fleiri að ræða. Ef gert er ráð fyrir að báðir foreldrar séu í sóttkví þá væri fjöldinn um 1.300. Alls eru 1.988 í sóttkví á öllu landinu.

Um er að ræða leikskólana Grænuborg, Sólgarður, Tjörn, Álftaborg, Holt, Hagaborg og Nóaborg. Frístundaheimilin sem um ræðir eru Undraland, Skýjaborgir og Frostheimar.

Kemur í ljós í vikunni hvort smitin eru fleiri

Smitin greindust yfir síðustu viku og því er fólk að losna úr sóttkví frá morgundeginum og til 21. ágúst, eða næsta laugardag. Að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, er eins og staðan er í dag um minnst tíu smit að ræða en það kemur í ljós í vikunni hvort þau eru fleiri þegar fólk fer í sína aðra skimun.

„Það er ekki fyrr en þá sem við vitum hversu útbreidd smitin eru á starfsstöðinni og þess vegna er mjög mikilvægt að ef að fólk finni fyrir einkennum að drífa sig í skimun,“ segir Helgi.

Spurður hvort að þetta hafi áhrif á aðlögun barna segir Helgi að á einhverjum leikskólanna hafi nú verið hafin og að það sé ástæðan fyrir því að á einum leikskólanum þurfti að loka stærri hluta af honum því að það var blöndun á deildum vegna aðlögunar nýrra barna.

Mikilvægt að fara strax í skimun

Helgi vill árétta að það sé ekki óeðlilegt við þessar aðstæður sem eru í samfélaginu núna að smit greinist á leikskólum og frístundaheimilum þar sem að fólk og börn koma saman úr ólíkum áttum.

„Þegar smit eru svona útbreidd í samfélaginu þá er eðlilegt að það greinist smit á leikskólum og frístundaheimilum. Fólk getur mögulega verið að bera smit inn á starfsstöðina. Það er þá líklega vegna þess að viðkomandi hefur verið í samneyti við einhvern sem er smitaður en ef það gerist þá þurfa allir sem viðkomandi mögulega getað smitað í starfsstöðinni að fara í sóttkví. Það er eðlilegt þegar smit eru svona útbreidd að það séu margar starfsstöðvar sem það hefur áhrif á,“ segir Helgi.

Hann segir það ákveðinn vanda í þessari bylgju hversu margir eru einkennalitlir og einkennalausir. Bæði sé fólk með frjókornaofnæmi með svipuð einkenni auk þess sem kvefpest sé að ganga með svipuð einkenni og Covid-19.

„Í einu tilviki var starfsmaður með gróðurofnæmi og hélt hann væri þess vegna með einkenni en var smitaður og var líklega í vinnunni í viku með einkenni án þess að gera sér grein fyrir því,“ segir Helgi.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur nú þegar líður að því að grunnskólarnir hefjast segir Helgi að í vikunni séu stórir vinnustaðir, þar sem fólk kemur úr mismunandi áttum kemur saman, að taka til starfa og það sé full ástæða til að vera á varðbergi.

„Við vitum að þegar starfsstöð lendir í sóttkví þá er það mjög íþyngjandi fyrir starfsfólkið, börnin og fjölskyldur barnanna. Það skiptir mjög miklu máli að fara eins varlega og kostur er á og gera allt sem við getum til að stöðva útbreiðslu,“ segir Helgi.