Þrjátíu og sjö virk kórónuveirusmit eru í Færeyjum en enginn Færeyingur er meðal hinna smituðu.

Fimm sjómenn bættust í gær í hóp þeirra sex sem greindust á þriðjudaginn var. Mennirnir voru allir í áhöfn Lítháska flutningaskipsins Cassiopeia, skipið lá við bryggju í Klaksvík.

Cssiopeia sigldi í gærkvöld til Las Palmas en mönnunum var gert að halda sig um borð í skipinu áður en þeir lögðu af stað aftur samkvæmt Kringvarps Færeyja.

Fjórir áhafnameðlimir urðu eftir í Færeyjum og eru nú í einangrun á sóttvarnarhóteli, þetta staðfestir Lars Fodgaard Møller landlæknir í samtali við Kringvarpið. Því er ljóst að einhverjir skipverjar sigldu með skipinu þrátt fyrir að vera smitaðir af veirunni.

23 skipverjar rússnesks togara sem lá að bryggju í Klakksvík í Færeyjum greindust með COVID-19 á laugardaginn. Enginn þeirra hafði farið í land, en í kjölfarið fóru átta Færeyingar sem höfðu verið í samskiptum við skipverja í sóttkví. Tveir skipverjanna liggja enn á sjúkrahúsi.

Aldrei hafa fleiri greinst með kórónuveiruna í Færeyjum en á laugardaginn. Alls hafa 225 einstaklingar greinst með Covid-19 í landinu og 188 hafa náð sér.

Ekkert smit greindist í Færeyjum frá 22. apríl til 5. júlí síðastliðinn. Þá greindist einstaklingur með smit við landamæraskimun á flugvellinum í Vág­um.

Tæplega 37 þúsund hafa verið skimuð fyrir veirunni og átta eru enn í sóttkví. Enginn hefur látið lífið vegna veirunnar þar í landi.