Skógareldar í norðurhluta Kaliforníu hafa haldið áfram að breiðast út í dag vegna mikilla vinda. Rafmagnið hefur verið tekið af í kringum borgina San Francisco, til að minnka hættu á að fleiri eldar brjótist út, og er nú unnið að því að flytja fólk af stórum hluta svæðisins.

Eldarnir hafa nú eyðilagt 79 byggingar, þar af 31 heimili.
Fréttablaðið/Getty

Banda­ríska veður­stofan gaf í morgun út neyðar­við­vörun, þar sem varað var við að miklir vindar og lítill raki í loftinu gætu valdið „sögu­legum“ náttúru­ham­förum. Mikil hætta er á að eldarnir breiðist út yfir alla­vega 30 héruð í Kali­forníu.

180 þúsund flýja heimili sín

Björgunarliðar stækkuðu í morgun svæðið, sem á að rýma, til muna og tvöfaldaðist við það sá fjöldi íbúa sem þarf nú að yfirgefa heimili sín. Slökkviliðsmenn hafa reynt að ná stjórn á eldinum án árangurs, því hann hefur breiðst mikið út á síðasta sólarhring vegna mikilla vinda.

Kýr frá Kaliforníu. Þessi hefur vonandi náð að koma sér undan eldinum.
Fréttablaðið/Getty

Samkvæmt lögregluyfirvöldum á svæðinu þurfa um 180 þúsund manns að yfirgefa heimili sín. „Þetta er stærsta rýmingaraðgerð sem eitthvert okkar hér hjá lögreglunni man til,“ stóð í færslu lögreglunnar á Twitter. Áður hafði verið gefin út viðvörun um mögulegar aðgerðir en íbúunum hefur nú verið gert að flýja heimili sín strax.

Eldarnir brutust út seint á miðvikudagskvöld og hafa breiðst út um svæði sem nemur um 12 þúsund hekturum. Samkvæmt yfirvöldum hafa þeir nú eyðilagt 79 byggingar, þar af 31 heimili, og valdið miklum skemmdum á 14 byggingum til viðbótar. Enginn hefur látist vegna eldanna enn sem komið er og ekki er vitað til að neinn hafi slasast.

Eldarnir brutust út seint á miðvikudag.
Fréttablaðið/Getty

Munu ekki neyða fólk af svæðinu

Búist er við að um 90 til 95 prósent af íbúum svæðisins sem á að rýma muni flýja heimili sín. Yfirvöld á svæðinu segja að þeir sem ákveði að vera eftir verði ekki neyddir í burt en þeir verði einir á báti ef neyðartilfelli koma upp.

Búið er að taka rafmagnið af stóru svæði í kringum San Francisco og er búist við að það verði gert á enn stærra svæði ef fram heldur sem horfir. Áætlað er að um 2,7 milljónir manns verði án rafmagns á næstunni. Er um að ræða stærstu skipulögðu myrkvun svæðis, til að koma í veg fyrir útbreiðslu skógarelda, í sögu fylkisins.

Frétt The New York Times um ástandið.