Frí­dagur verslunar­manna var haldinn há­tíð­legur í fyrsta sinn þann 13. septem­ber 1894, þá fékk Verslunar­manna­fé­lag Reykja­víkur sinn fyrsta al­menna frí­dag. Haldin var úti­skemmtun í Ár­túni við Elliða­ár. Há­tíðin hófst á há­degi og stóð til um klukkan sjö. Unað var við ræðu­höld, söng, lúð­ra­spil, leiki og dans.

Á þessum tíma átti fólk al­mennt ekki sumar­frí og var því dagurinn afar kær­kominn. Í upp­hafi var frí­dagur verslunar­manna einungis frí­dagur þeirra sem unnu í verslunum en er nú al­mennur frí­dagur á Ís­landi. Þróunin hefur þó helst færst í þá áttina að nær allir í­búar landsins eru í fríi, nema verslunar­fólk.

Það var mikið stuð og stemning hjá þessu unga fólki við Umferðarmiðstöðina í Reykjavík 1. ágúst árið 1988 þegar það var á leið út á land um verslunarmannahelgina. Þau voru ekki feimin við Kristján A. Einarsson ljósmyndara sem þau veifuðu glöð í bragði.
Mynd/Kristján A. Einarsson

Verslunar­manna­helgin er nú kennd við frí­dag verslunar­manna sem hefur frá árinu 1934 verið fyrsti mánu­dagur í ágúst. Sam­kvæmt Vísinda­vef Há­skóla Ís­lands á tíma­setningin rót að rekja til þjóð­há­tíðarinnar 2. ágúst 1874. Há­tíðin var haldin til að fagna þúsund ára af­mæli Ís­lands­byggðar, en þá fengu Ís­lendingar jafn­framt af­henta sína fyrstu stjórnar­skrá frá Dana­konungi.

Þjóð­há­tíðarinnar var reglu­lega minnst í Reykja­vík kringum alda­mótin, og héldu verslunar­menn löngum tryggð við daginn eftir að full­veldis­dagurinn hafði tekið við sem helsti þjóð­minningar­dagur upp úr árinu 1918.

Eftir síðari heims­styrj­öldina fékk verslunar­manna­helgin smám saman á sig þann blæ sem við þekkjum enn þann dag í dag. Skipu­lagðar úti­há­tíðir og ferða­lög.

Hópur fólks setur upp svokallað hvítt tjald í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum árið 1994. Slík tjöld eru eitt af einkennum Þjóðhátíðar og aldrei hafa fleri sótt um leyfi fyrir hvítt tjald í dalnum en í ár, þegar sótt var um fyrir 266 tjöld.
Mynd/Ómar Garðarsson

Ferða­fé­lög og ferða­skrif­stofur byrjuðu að skipu­leggja langar helgar­ferðir til dæmis í Þórs­mörk, Húsa­fell og Vagla­skóg. Ungt fólk fór snemma að nýta sér hina löngu helgi til úti­legu og valdi sér staði sem voru í nánd við dans­leiki og böll.

Snemma var haft orð á því að mikil ölvun og skríls­læti fylgdu unga fólkinu um verslunar­manna­helgina. Allt frá árinu 1952 eru til heimildir þar sem fjallað er um læti í ung­mennum, til dæmis í ná­grenni við Hreða­vatns­skála þar sem „öl­móður ó­spektar­lýður framdi mikil spell“.

Með auknum frétta­flutningi um fyllerí og læti í ungu fólki um verslunar­manna­helgina hófu ung­menna­sam­bönd, átt­haga­fé­lög og bindindis­hreyfingin að halda skemmtanir í meira mæli þar sem á­fengi var ekki haft um hönd, eða átti ekki að vera haft um hönd, svo sem í Atla­vík og Galta­lækjar­skógi.

Fjölmargir komu saman helgina 30. júlí til 2. ágúst árið 1976 á útisamkomu í Húsafelli. Fólkið naut þess að hlusta á tónlist sem leikin var á sviði við brekkuna og skemmta sér saman. Eins og sjá má var íslenska lopapeysan, þá líkt og nú, afar vinsæl.
Mynd/Karl

Undanfarin tvö ár hefur ekki verið mikið um hátíðarhöld um verslunarmannahelgina sökum heimsfaraldursins, sagan í ár er önnur og er fjöldi útihátíða og skemmtana víða um land um helgina. Í Vestmannaeyjum verður Þjóðhátíð, í Reykjavík verður Innipúkinn, Neistaflug í Neskaupstað, Berjadagar í Ólafsfirði og Síldarævintýri á Siglufirði svo dæmi séu tekin.

Fjöldi fólks saman kominn á útihátíð í Galtalækjarskógi árið 1998. Eins og sjá má voru mörg börn í Galtalæk þetta árið, en þannig hefur það gjarnan verið í gegnum tiðina þar sem hátíðin í Galtalæk var bindindismót.
Mynd/Vigdís