Um 53 prósent hinsegin nemenda segja að niðrandi ummæli um hinsegin fólk hafi mikil eða mjög mikil áhrif á líðan þeirra.

Hinsegin nemendur reyna að forðast leikfimistíma, búningsklefa og íþróttahús. Þá hefur verið ráðist með höggum og spörkum á 4,6 prósent hinsegin nemenda í skólum vegna kynhneigðar. Þetta kom fram í fyrirlestri Tótlu I. Sæmundsdóttur, fræðslustýru Samtakanna 78, sem bar heitið Hinsegin í íþróttum, rannsókn á líðan hinsegin ungmenna, á ráðstefnu Reykjavíkurleikanna, Íþróttir fyrir alla.

Könnun samtakanna er samstarfsverkefni GLSEN með Columbia-háskólanum og var 181 hinsegin nemandi sem svaraði spurningunum. Meðalaldurinn var 16,7 ár, flestir voru tvíkynhneigðir og samkynhneigðir.

„Krakkarnir eru að forðast þessi kynjuðu rými. Þetta er bara spurning um að búa til rými þar sem allir geta fundið það sem þeir þurfa. Ég heyri það í mínu óformlega spjalli við unglinga að ungmenni forðast rými þar sem þeim finnst að öðrum líði óþægilega í kringum þau. Þegar kemur að trans ungmennum velja þau svokallað þriðja rými, sem er hægt að nálgast í móttökunni. Þá fá þau sérklefa, sem getur verið hvað sem er í íþróttahúsum sem hefur verið græjað fyrir krakkana. Þannig hefur skólinn komið til móts við þau,“ segir hún.

Enn er mikil áhersla á sund í skólum en nokkrir krakkar í Víðistaðaskóla skiluðu umsókn að tillögu í Menntastefnu til ársins 2030 um að mörgum nemendum liði illa í sundi.

„Það þarf alltaf umræðuna til að breyta hlutunum. Ég fer inn og út úr skólunum og aðstoða við að laga skólakerfið að börnunum og börnin að skólakerfinu, þá er þetta yfirleitt spurning um að eiga samtalið. Skólarnir eru mismóttækilegir.“

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustjóri Samtakanna 78
fréttablaðið/sigtryggur ari

Hinsegin krakkar verða fyrir töluverðri áreitni í formi munnlegra móðgana en einnig líkamlegri.

„Ég vinn mikið í því að tækla hómófóbísk ummæli hjá krökkum. Yfirleitt átta þau sig ekki á því hvað þau eru að segja. Orðin eru ekki endilega neikvæð en þau eru notuð í neikvæðri merkingu. Oft er nóg að benda á að þau eru að segja að það sé slæmt að vera hommi, lesbía eða trans, þó að þau meini það ekki þannig. Fæstir krakkar sem ég hef hitt eru með innbyggða fordóma.“

Hún segir að það sé auðvitað vont til þess að vita að 4,6 prósent verði fyrir líkamsárás vegna kynhneigðar og 2,9 prósent verði mjög oft fyrir árásum vegna kyns.

„Þessar tölur vekja áhyggjur. Þó við séum í flestum tilvikum komin á betri stað þá er ekki eðlilegt að tæplega fimm prósent hinsegin nemenda verði fyrir árásum vegna kynhneigðar sinnar. Það er áhyggjuefni, en ég hef trú á að með fræðslu og samtali við krakkana getum við snúið þessu við. Oft grasserast svona í þögninni, því miður,“ segir Tótla, en bendir á að krakkar í dag séu miklu klárari en áður.

„Það er mín upplifun. Hlutirnir sem þrifust þegar ég var unglingur og í dag eru tveir ólíkir heimar. Þau eru meðvitaðri um samfélagið í kringum sig en þegar ég var unglingur.“