Álíka margir eru fylgjandi því að íslenska ríkið haldi eignarhaldi sínu á bönkum óbreyttu og að dregið verði úr því, eins og stjórnvöld stefna að. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is.

„Í sjálfu sér koma þessar niðurstöður mér ekki á óvart. Þetta er svona í samræmi við þá tilfinningu sem maður hefur,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar telja tæp 37 prósent að eignarhald ríkisins í bönkum eigi að vera óbreytt en tæp 35 prósent vilja að dregið verði úr því. Þá vilja 16,5 prósent að ríkið auki eignarhald sitt í bönkum. Loks vilja tæp sjö prósent að ríkið eignist alla eignarhluti í bönkunum en rúm fimm prósent að ríkið selji alla eignarhluti sína.

Í dag fer ríkið með alla eignarhluti í Íslandsbanka og 98,2 prósenta eignarhlut í Landsbankanum. Samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda er gert ráð fyrir að ríkið haldi 34-40 prósenta hlut í Landsbankanum en selji alla eignarhluti sína í Íslandsbanka.

Óli Björn viðurkennir að hann hefði viljað sjá meiri stuðning við það að ríkið drægi sig úr starfsemi fjármálafyrirtækja að mestu eða öllu leyti. „Það er þá bara verka vinna og menn þurfa þá að fara í þá umræðu. Ég hins vegar skil auðvitað fólk sem hefur efasemdir um að það sé rétt að gera það.“

Nokkuð stór hluti svarenda, eða 27 prósent, sögðust ekki vita hvernig haga ætti eignarhaldi ríkisins á bönkum. Í aldurshópnum 18-24 ára var hlutfallið 58 prósent og 44 prósent meðal kvenna.

Að mati Óla Björns væri áhugavert að sjá svör fólks við spurningunni hvort ríkið eigi að vera taka fjárhagslega áhættu af rekstri fjármálafyrirtækja. „Þá gæti fólk velt því fyrir sér hvort ríkið ætti að vera binda fleiri hundruð milljarða í fjármálafyrirtækjum sem gætu nýst í öðrum innviðum.“

Óli Björn býst við því að aukinn kraftur færist í umræðuna um sölu ríkisins á eignarhlutum í bönkum í vetur. „En þetta er ekkert verkefni sem menn fara í á einu eða tveimur árum. Ég hygg að þetta verkefni sem menn þurfi að vera í sjálfsagt næsta áratuginn.“

Ef litið er til þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar kemur í ljós nokkur munur eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk styður.

Um helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar vill að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu í bönkum. Það sama telja um 40 prósent Framsóknarmanna og Vinstri grænna, tæpur þriðjungur Pírata og um fjórðungur stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Stuðningur við það að ríkið haldi óbreyttu eignarhaldi er mestur meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Samfylkingarinnar eða rúm 40 prósent. Um 30 prósent sjálfstæðismanna og Viðreisnarfólks vill óbreytt eignarhald og aðeins færri Píratar.

Mestur stuðningur við það að ríkið auki eignarhald sitt á bönkum er hjá kjósendum Samfylkingarinnar, Pírata og Flokks fólksins eða um 26-27 prósent. Sömu skoðunar eru 12-14 prósent kjósenda Vinstri grænna, Miðflokksins og Framsóknarflokksins.

Þá eru rúm 13 prósent stuðningsmanna Miðflokksins og rúm 11 prósent Pírata á því að ríkið eigi að kaupa alla eignarhluta í bönkunum. Tæp 11 prósent sjálfstæðismanna vilja hins vegar að ríkið selji alla eignarhluti sína.

Könnunin var framkvæmd 24. – 29. júlí síðastliðinn og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhóp Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 51 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.