Töfrarnir sem verða til þegar tveir einstaklingar eiga stund saman eru hverri manneskju lífsnauðsynlegir. Sá galdur kann að vera í meiri hættu en nokkru sinni og afleiðingar geta orðið alvarlegar, að sögn félagsfræðiprófessors við HÍ.

Félagslegir töfrar sem verða til í samskiptum fólks eiga undir högg að sækja. Ein ástæðan er hraðar tæknibreytingar, samkvæmt kenningu sem Viðar Halldórsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, er með í smíðum.

Viðar vinnur nú að fræðigrein um það sem hann kallar „social magic“ eða félagslega töfra. Hann segir töfrana verða til í gefandi samskiptum manna á millum. Þegar tveir eða fleiri einstaklingar hittast í eigin persónu skapist einhvers konar orka, tilfinning eða einhvers konar undur.

Viðar Halldórsson, prófessor

„Félagsfræðingar hafa lengi haft áhyggjur af því að nútímavæðingin taki þessa töfra frá okkur eða umbreyti þeim. Þessi þróun birtist í því að sameiginlegum stundum fer fækkandi og stórfyrirtæki hafa tekið það yfir að skemmta fólki,“ segir Viðar.

Þegar einstaklingur A og einstaklingur B hittast og eiga í einhvers konar samskiptum verður eitthvað nýtt og verðmætt til, eitthvað stærra en summa þeirra tveggja sem einstaklinga, að sögn Viðars. Í Fréttablaðinu í gær ræddi sálfræðingur rannsóknir sem sýna fram á að trúnaðarvinum fólks hefur fækkað í vestrænum samfélögum. Einmanaleikinn getur orðið banvænn og hættulegur öðrum, eins og talið er að skýri fjöldamorð ógæfufólks, síðast í High­land Park í Illinois á mánudag.

„Tækni- og neysluvæðingin hefur svolítið tekið líf okkar yfir, og óx sérstaklega fiskur um hrygg í Covid-ástandinu. Í stað þess að við upplifum töfrana í raunverulegum samskiptum, þá nálgumst við eftirlíkingar af þeim í gegnum netið eða kaupum aðgang að upplifunum í kvikmyndahúsum, spilavítum og Disneylandi,“ segir Viðar.

Í umræðu um aukningu í dag­drykkju gamalmenna vegna lífsleiða, hefur verið bent á að eldri borgarar ýti nú á takka í símanum í stað þess sem dæmi að fara út í banka og hitta fólk. Sjálfsafgreiðsla í stórmarkaði er annað dæmi um að vél leysir mannleg samskipti af hólmi.

„Tækninni er ætlað að gera líf okkar auðveldara en við höfum haft ofurtrú á henni og misstum fyrir vikið kannski sjónar á stóru myndinni. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir félagslega og andlega heilsu okkar ef daglegt líf færist á netið? Ef við stundum nám og vinnu heima hjá okkur, fáum matvöruna senda heim og eigum í samskiptum við „talmenni“ fyrirtækja og stofnana? Við sjáum að angist fólks, sem birtist í auknum kvíða, þunglyndi og einmanaleika, eykst í vestrænum tækni-neyslusamfélögum, sem og ójöfnuður,“ segir hann.

Viðar segir mikilvægt að leiða hugann að því að tæknibreytingar séu ekki viðbót við lífið, heldur umbreyti þær lífinu og tilverunni. Þannig geti tæknibreytingar haft ófyrirséðar afleiðingar. Halda megi fram að sumar tæknibreytingar breyti sjálfum grunnkjarna samfélagsins og mannskepnunnar.

„Það getur orðið mjög slæmt fyrir einstaklinginn og samfélagið ef dregur úr raunverulegum samskiptum. Við þurfum að gefa þessu aukinn gaum,“ segir Viðar.