Arion banki telur að vandræðin sem Íslendingar lentu í þegar greiðslur að heiman skiluðu sér ekki séu að baki eftir að rof kom á samband greiðslukerfis bankans og erlendu fjárálastofnunarinnar sem er mótaðili bankans þegar kemur að greiðslum í evrum á milli landa.

Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi hjá Arion banka í skriflegu svari til Fréttablaðsins í dag.

Óánægjuraddir heyrðust að utan að peningarnir væru ekki að skila sér á réttum tíma og einhverjir kvörtuðu undan því að kortin þeirra virkuðu ekki. Haraldur kannaðist ekki við það að kortin væru hætt að virka en sagði að hnökrar hefðu komið upp í kerfinu þegar kemur að millifærslum.

„Í upphafi vikunnar varð rof á sambandi milli greiðslukerfa Arion banka og þeirrar erlendu fjármálastofnunar sem er mótaðili bankans þegar um er að ræða greiðslur í evrum á milli landa. Þetta hafði í för með sér að greiðslur skiluðu sér í einhverjum tilfellum seinna til viðtakenda. Búið er að koma í veg fyrir vandamálið og eðlilegt flæði á greiðslum komst á um miðjan dag í gær.“

Þá lentu fjölmargir í því að sjá ekki yfirdráttarheimild sína þegar þau fóru inn á netbankann. Haraldur segir að búið sé að leysa úr því.

„Yfirdráttarheimildir á reikningum hafa í mörgum tilvikum ekki verið sýnilegar í netbanka og appi í morgun þrátt fyrir að heimildirnar séu í gildi og hægt að ganga á þær. Þetta hefur því hvorki áhrif á raunverulega stöðu reikninga né greiðslur. Heimildir eru nú sýnilegar í netbanka og appi Arion banka.“