„Dagurinn var fyrst haldinn árið 1985 að frumkvæði félags Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að European Solidarity Corps samstarfsáætlun Evrópusambandsins, sem er náskyld Erasmus+ sem flestir Íslendingar þekkja,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, sem hefur umsjón með áætluninni sem býður upp á sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni fyrir ungt fólk.

„Áætlunin er fyrir ungt fólk og með henni er fólki gert kleift að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum erlendis og láta gott af sér leiða.

Hún gerir einnig samtökum og ungum einstaklingum kleift að þróa samfélagsverkefni til að takast á við áskoranir í nærumhverfinu og skapar tækifæri fyrir að minnsta kosti 270.000 ungmenni í Evrópu,“ segir Elísabet, en frá og með 2022 getur ungt fólk á aldrinum 18-35 ára einnig sótt um styrk til þess að fara til landa utan Evrópu til þess að sinna mannúðaraðstoð.


Víkka sjóndeildarhringinn


Elísabet segir ávinninginn af sjálfboðaliðastörfum greinilegan.

„Þau auka samfélags- og borgaralega þátttöku ungs fólks, víkka sjóndeildarhringinn, auka sjálfstraust og tungumálakunnáttu og efla einstaklinginn bæði persónulega og faglega.“ Hér á landi taka samtök og sveitarfélög á móti um 50 sjálfboðaliðum frá Evrópu ár hvert.

Sjálfboðaliðarnir leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags og starfa við strandhreinsun, vegagerð, skógrækt, flóttamannaaðstoð, störf á farfuglaheimilum og fleira.

Sjálfboðaliðastarf gefur ungu fólki bæði færi á að láta gott af sér leiða og víkka sjóndeildarhringinn um leið. Mynd/Aðsend

Landskrifstofa Erasmus+ sem sér um European Solidarity Corps og Eurodesk, upplýsingaveitu fyrir ungt fólk á Íslandi, mun halda daginn hátíðlegan ásamt sjálfboðaliðum og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, en þau munu saman hreinsa rusl og plast á Álftanesinu. Sökum Covid-19 faraldursins og núgildandi takmarkana verður svo stefnt að því bjóða alla velkomna á viðburð í janúar 2022,“ segir Elísabet að lokum.

Sunna Líf Þórarinsdóttir dvaldi í Brussel í eitt ár við sjálfboðastörf fyrir skátahreyfinguna. Mynd/Aðsend

Akkúrat það sem ég þurfti


Sunna Líf Þórarinsdóttir dvaldi í Brussel í eitt ár við sjálfboðastörf fyrir skátahreyfinguna.

„Ég sá auglýsinguna á hópspjalli sem ég var í vegna viðburðar sem ég tók þátt í fyrr um árið í Strassborg og hugsaði að þetta væri gott tækifæri til að sjá aðeins meira af heiminum,“ segir Sunna og bætir við að það hafi verið plús að skrifstofan var í Bruss­el en hún hefur lengi haft áhuga á alþjóðamálum.

Sunna fékk árssamning hjá European Scout Bureau og átti upphaflega að sjá um upplýsingamiðlun og viðburðastjórnun, en fékk líka að taka að sér alls kyns verkefni, til dæmis fréttaskrif og auglýsingagerð.

„Ég held að þetta hafi verið akkúrat það sem ég þurfti, ég hafði verið í háskólanámi sem ég fann mig ekki í, svo að tækifærið kom á fullkomnum tíma. Vinnan var áhugaverð og umhverfið nýtt og spennandi.

Það var auðvitað mjög erfitt að vera í burtu frá vinum og fjölskyldu og búa ein í nýrri borg þar sem ég talaði ekki tungumálið, en þetta var mikið ævintýri og ég kynntist fólki sem var í öðrum sjálfboðaverkefnum í Belgíu svo að ég eignaðist nýja vini og kynntist sjálfri mér betur í leiðinni.“

Karen Miller er nýkomin til Íslands frá heimalandi sínu Frakklandi og stefnan er að vinna hér í eitt ár. Mynd/aðsend

Finnst ég bæði læra og gera gagn


Karen Miller er nýkomin til Íslands frá heimalandi sínu Frakklandi og stefnir á að vinna hér í ár á skrifstofu AUS sem heldur utan um alþjóðleg ungmennaskipti.


„Ástæður þess að ég ákvað að fara utan í sjálfboðaliðastarf voru bæði persónulegar og faglegar. Mig langaði að starfa fyrir sjálfstæð félagasamtök á sviði alþjóðlegra skipta. Mig langaði að öðlast nýja þekkingu í stjórnun sjálfboðaliðastarfs, en mig langar að starfa á því sviði í framtíðinni.

Einnig langaði mig að prófa eitthvað nýtt, búa erlendis og kynnast þannig nýju landi og menningu, auk þess að hafa nægan tíma til að ferðast um landið.“


Karen segist hafa valið Ísland þar sem hún hafi hrifist af landslaginu. „Hingað hafði ég aldrei komið áður en var ákveðin í að kynnast landinu betur en bara sem ferðamaður.“


Aðspurð segir Karen reynsluna hingað til hafa verið góða. „Mér finnst ég bæði læra og gera gagn og mér líður vel í því umhverfi sem ég starfa í. Ég deili húsnæði með fólki frá ólíkum Evrópulöndum, eða Spáni, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og Bretlandi. Við höfum ferðast um suðurhluta Íslands og það var stórkostlegt svo ég get ekki beðið eftir að kynnast öðrum hlutum landsins.“ n