Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sem hefur iðulega verið notuð til að skoða eldgos er enn í notkun í verkefni fyrir Landamærastofnun Evrópu, Frontex. Ekki hefur verið talin nauðsyn á að nota hana komi til eldgoss á Reykjanesskaga en breytist það snögglega er hægt að kalla vélina heim á tveimur dögum.

Þetta kemur fram í svari Ásgeirs Erlendssonar, talsmanns Landhelgisgæslunnar.

Aðspurður hvort hægt væri að kalla vélina heim í flýti segir Ásgeir að inn í samningnum við Frontex sé ákvæði um að hægt sé að kalla vélina heim ef þess þurfi. „Samningurinn við Frontex er þess eðlis að hægt er að kalla vélina heim ef náttúruhamfarir verða á Íslandi,“ segir Ásgeir og bætir við að ekki sé búist við að þörf sé fyrir vélina að þessu sinni.

„Miðað við þá hugsanlegu sviðsmynd sem vísindamenn gera ráð fyrir ef eldgos verður á Reykjanesi nýtast þyrlurnar betur en flugvélin miðað við staðsetningu og eðli þess mögulega goss. TF-SIF og búnaður hennar hefur nýst vel þegar gosið hefur undir jöklum og þegar erfitt hefur reynst að komast að hamförum sökum hæðar. Ekki hefur verið óskað eftir því af hálfu almannavarna að vélin verði kölluð heim en verði þess óskað mun vélin snúa aftur til Íslands.“

Ásgeir áætlar að það myndi taka tvo daga að fá vélina heim.

„Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar eru með í för á Ítalíu og má gera ráð fyrir að vélin yrði tilbúin til heimferðar á tveimur sólarhringum.“