Minnsti jepplingur Volkswagen er T-Cross og er hann í raun háfættur Volkswagen Polo, en þó 54 mm lengri, 138 mm hærri og ökumaður situr 100 mm hærra í bílnum en í Polo. Bíllinn er smíðaður á sama MQB-undirvagni og jafn langt er á milli öxla í Polo og T-Cross. Innanrými T-Cross er þó stærra en í Polo og betur fer um aftursætisfarþega fyrir vikið. Ytra útlit T-Cross er þó nokkru ólíkt Polo og hér fer þónokkuð laglegur jepplingur af smærri gerðinni.

Með tilkomu T-Cross er jepplinga og jeppaflóra Volkswagen ansi þéttskipuð, líkt og hjá mörgum öðrum bílaframleiðandanum. T-Cross er minnstur, svo T-Roc, þá Tiguan og Tiguan Allspace, svo pallbíllinn Amarok og stærstur er Touareg. Það á þó oftast við jepplinga og ávallt jeppa að vera fjórhjóladrifnir, en það á ekki við T-Cross, hann er eingöngu framhjóladrifinn. Því er hér kominn borgarbíll fyrir þá sem vilja sitja hærra en í Polo og með aðeins meira innanrými og einn aðalkosturinn við bílinn er að aftursætið er á braut og má færa það alveg uppað framsætunum og bú þá til heilmikið flutningspláss, sem reyndist reyndar ágætlega í reynsluakstrinum.

Volkswagen T-Cross reynslu 2.jpg

Lipur en spar á aflið

En hvernig skildi vera að aka T-Cross? Í sem fæstum orðum er hann prýðilegur í akstri, einkar lipur í borgarumferðinni og vel má leggja á hann fyrir hornin og hann fer vissulega vel með farþegana. Aðeins er um eina vélargerð að ræða í T-Cross, en þó stendur valið milli 95 og 115 hestafla gerðar þessarar 1,0 lítra og þriggja strokka vélar. Aflminni gerðin var í reynsluakstursbílnum og þar vottar fyrir aflleysi ef flýta á fyrir för, en þó má færa rök fyrir því að hún dugar bílnum ef krafa fyrir afl er ekki mikil.

Gera mætti meiri kröfu til lágrar eyðslu þessarar litlu vélar, en í reynsluakstrinum var talan 6,9 lítrar oft sýnileg og mátti búast við lægri tölu. Með minni vélinni má fá bílinn fyrir innan við 3 milljónir króna og verður það að teljast hófstillt verð. Með 115 hestafla útgáfunni færist verðið þó upp í 3,45 milljónir með Life-innréttingu og 4,2 milljónir í Style-útfærslu hennar. Að mati greinarritara eru því líklega bestu kaupin í ódýrustu útfærslunni, eins og gjarnan á við með minni bíla.

Volkswagen T-Cross reynslu 3.jpg

Aftursætin á braut

Að innan er T-Cross bara nokkuð laglegur en Volkswagen hefur þó sparað til í efnisvalinu, enda vart hægt að gera kröfu til annars í svo ódýrum bíl. Stór kostur er fólginn í mörgum geymsluhólfum og stærð þeirra kemur á óvart, ekki síst í hurðunum. Ágætlega fer um fullvaxið fólk í aftursætunum, en þó myndu fáir slíkir kjósa sér að sitja í miðjunni afturí, bíllinn er einfaldlega ekki svo breiður að hann bjóði uppá mikið pláss þar.

Flutningsrými bílsins er þó prýðilegt og nokkru stærra en í Polo og mikill kostur er fólginn í að hafa aftursætið á braut. Fyrir vikið getur hann flutt óvenju mikið af farangri. Með því er auðvelt að réttlæta hærra verð T-Cross en fyrir Polo og ófáir munu kjósa hann umfram hinn mun smærri Polo eingöngu þess vegna.

Volkswagen T-Cross reynslu 4.jpg

Stóri kosturinn í miklu flutningsrými

Líklega má segja að helstu samkeppnisbílar T-Cross sé bílar eins og Citroën C3 Aircross, Peugeot 2008, Renault Captur og Mazda CX-3 og innan Volkswagen Group bílasamstæðunnar er hann svipaður að stærð og Seat Arona, Audi Q2 og Skoda Kamiq. Citroën C3 Aircross kostar frá 3,5 milljónum en hefðbundinn Citroën C3 þó aðeins 2,4 milljónir. Peugeot 2008 kostar frá 2,8 milljónum, Renault Captur kostar frá 3,7 milljónum og Mazda CX-3 frá 3,2 milljónum en að mati greinarritara er hann fríðastur þeirra.

Skoda Kamig er ekki ennþá kominn til landsins og verð hans ekki ljóst ennþá. Val kaupenda á milli þessara bíla fer væntanlega mest eftir útliti þeirra og búnaði en líklega má telja sigurvegarann þeirra á milli hvað varðar flutningsrými sé að finna í þessum Volkswagen T-Cross. Hér fer talsvert aksturshæfur bíll, vel útlítandi og með furðulega stóru innanrými fyrir svo ódýran bíl.

Volkswagen T-Cross reynslu 5.jpg

Kostir: Útlit, stórt innanrými, notagildi, búnaður

Ókostir: Of mikil eyðsla. Takmarkað vélarúrval

1,0 lítra bensínvél, 95 hestöfl
Framhjóladrif
Eyðsla: 4,9 l./100 km í bl. akstri
Mengun: 112 g/km CO2
Hröðun: 11,0 sek. í 100 km hraða
Hámarkshraði: 180 km/klst
Verð frá: 2.990.000 kr.
Umboð: Hekla