„Forsendur sambúðar, hvort sem hún byggist á kynvitund, kynhneigð eða öðrum aðstæðum, koma löggjafanum ekki við,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögu Pírata. Rifjað er upp að hjúskaparlögum hafi verið breytt árið 2010 og fallið frá því skilyrði að hjúskapur væri á milli karls og konu. Í staðinn hafi verið sett skilyrði um að hjúskapur væri á milli tveggja einstaklinga óháð kyni. „Ljóst er að ganga má lengra þannig að skráð sambúð geti verið milli fleiri aðila en tveggja sem af einhverjum ástæðum kjósa að búa saman með þeim réttaráhrifum sem því fylgja,“ segja Píratar.

Í samráðsferli sem Píratar segjast hafa efnt til bárust fimmtán athugasemdir og ábendingar varðandi tillögu þeirra. Flestar eru þær jákvæðar gagnvart inntaki tillögunnar. Kona sem á íbúð með systur sinni og heldur með henni heimili fagnar málinu.

Systur og lífsförunautar

„Við keyptum okkur íbúð saman og erum með sameiginleg fjármál, rekum bíl saman, borgum saman af reikningum og mat og annan kostnað sem til fellur. Þannig að ég skilgreini systur mína sem minn lífsförunaut, þó við sofum í sitt hvoru herbergi og ekkert kynferðislegt sé á milli okkar,“ lýsir konan stöðu þeirra systra.

Segir konan að þegar þær systur hafi keypt íbúðina þá hafi þær lent í miklum vandræðum með að fá lán þar sem einungis fólk í sambúð geti tekið lán saman.

„Þetta hefði því getað haft veruleg fjárhagsleg áhrif á okkur, að vera mismunað svona vegna hjúskaparstöðu. En sem betur fer leyfði lífeyrissjóður systur minnar fólki að taka lán saman óháð því hvort þau væri í sambúð eða ekki,“ lýsir konan. Þar með var björninn þó ekki unninn.

„En við erum fastar og getum ekki endurfjármagnað eða flutt þar sem lífeyrissjóður systur minnar breytti þessu og núna má bara fólk sem er í sambúð taka lán saman, sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á okkur fjárhagslega og okkur finnst okkur mismunað vegna hjúskaparstöðu,“ rekur konan og ræðir svo áform þeirra systra til lengri tíma.

Eru að hugsa um að eignast barn

„Í framtíðinni þá höfum við hugsað okkur að hugsanlega eignast barn sjálfar. Það myndi auðvelda okkur til muna ef við gætum skráð okkur báðar sem foreldri barnsins og tryggt öryggi þess til muna og fengið þá þau almennu réttindi sem aðrir foreldrar eru með. En það er auðvitað ekki hægt þar sem við erum systur. En við myndum hafa áhuga á að það væri mögulegt, að ala saman upp barn í þessum heimi,“ skrifar konan.

Einnig segir konan að þeim systrum myndi líka þykja eðlilegt að þær gætu nýtt persónuafslátt hvorrar annarrar ef aðstæður breytast með einhverju móti. „Við sjáum ekki muninn á því að við gerum það eða fólk í sambandi, enda erum við lífsförunautar. Svo er líka mun líklegra að fólk skilji heldur en að við hættum að vera systur ef maður fer út í þá sálma,“ bendir hún á.

„Í gegnum tíðina hefur fólk oft ekki barist fyrir þessu þar sem oft er um að ræða tímabundið ástand. Núna höfum við búið saman í mörg ár og vitum ekkert hvort að það breytist eða hvort við höfum áhuga á að það breytist, tíminn einn mun leiða það í ljós. En þessi hjúskaparlög gera okkur erfitt fyrir fjárhagslega, samfélagslega og gera okkur báðum erfiðara að eignast barn,“ lýsir konan áfram ástandinu.

Þær systur hafa að sögn konunnar rekið sig á fleiri veggi í daglega lífinu.

Má ekki bjóða systur sinni á árshátíð

„Einnig höfum við lent í því að mega ekki taka hvor aðra á árshátíð vinnustaðar þar sem við vorum ekki raunverulegt par eða í raunverulegu sambandi. Þetta er auðvitað minna atriði en hin sem ég tel hér að ofan en er samt engu að síður mismunun vegna hjúskapar og kemur með leiðinlegar tilfinningar sem best væri að sleppa við,“ segir í ábendingu konunnar.

„Mikilvægt er að lögin breytist til að bæta réttindi fólks í óhefðbundinni sambúð og það getur einnig leitt til þess að fordómar og mismunun í samfélaginu minnki einnig til muna þar sem slík sambúð yrði þá meira samkvæmt lögum,“ undirstrikar systirin. „Núverandi hjúskaparlög hafa því valdið okkur óþarflega miklum vandræðum, bæði réttindalega, fjárhagslega og samfélagslega ásamt því að valda okkur kvíða og mismunun.“

Hver fær barn sjö foreldra?

Annar sem sendir inn athugasemd bendir á annamarka á tillögu Pírata. Ekki séu færð nein heildstæð rök fyrir þeirri breytingu sem lögð sé til.

„Svo vikið sé að einu atriði, sem eru ættleiðingar. Ef sjö manneskjur geta skráð sig í sambúð eða hjónaband og ættleitt svo barn. Hvað verður þá um barnið þegar sjömenningarnir slíta hjúskapnum? Ekki er ólíklegt að allir vilji hafa forræði yfir barninu og þá er nú forræði barnsins ekki bara sameiginlegt heldur einnig fjarska flókið. Er hagur barnsins hafður að leiðarljósi með auknu flækjustigi?“ spyr þessi bréfritari.

Tillaga Pírata er sextánda mál á dagskrá á fundi Alþingis sem hefst klukkan 13.00 í dag.