Frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um fækkun sýslumanna sætir viðamikilli gagnrýni. Ólíklegt er að Framsóknarflokkurinn muni styðja frumvarpið. Ný þingmálaskrá var lögð fram í gær.

Sýslumannsfrumvarpinu hefur verið frestað til 1. febrúar.

Fréttablaðið sagði fyrst fjölmiðla frá því í fyrrasumar að Jón Gunnarsson hygðist gera grundvallarbreytingu á skipulagi sýslumannsembætta víða um land og fækka embættum úr níu í eitt.

Nokkru síðar lagði dómsmálaráðherra frumvarp fram um málið. Framgangur þess hefur verið hægur sem kann að skýrast af andstöðu stjórnarþingmanna í samstarfsflokkum Sjálfstæðismanna.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og oddviti Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, segir að sumt sé gott í frumvarpinu svo sem efling starfsstöðva á landinu með flutningi verkefna og bættri þjónustu.

„Við í Framsókn teljum þó ekki rétt að ná þeim markmiðum með því að leggja niður sýslumannsembættin og veikja þar með stjórnsýslu í heimahéraði. Þingflokkurinn telur þörf á að efla og styrkja embættin víðs vegar um landið en það þurfi að gera innan þess fyrirkomulags sem er í dag,“ segir Ingibjörg.

„Hér er einfaldlega um að ræða mál sem þarfnast frekari umræðu og yfirlegu,“ segir Ingibjörg. Hún segir að frumvarpið sé enn til umræðu innan þingflokksins.

Ljóst er að andstaðan við breytingarnar er veigamikil. Byggðastofnun segir í umsögn sinni um frumvarpið að um stóra kerfisbreytingu sé að ræða með gagngerri endurskoðun skipulags, „sem framselur vald úr héraðsbundnum stjórnsýslueiningum sýslumanna inn í miðstýrða einingu“. Ekki verði séð með augljósum hætti að nauðsyn sé á þessum miklu stjórnsýslubreytingum til að ná kynntum markmiðum um bætta þjónustu og fjölgun verkefna í landsbyggðunum.

Þá telur Byggðastofnun ástæðu til að minna á að „bæði í þjónustulegu og byggðalegu tilliti gætir tortryggni gagnvart samþjöppun starfseininga“. Þegar sýslumönnum hafi verið fækkað úr 24 í níu hafi fyrirheit ekki gengið eftir.

Stjórn Sýslumannafélags Íslands gagnrýnir einnig frumvarpið harðlega, enda sé það ekki unnið á faglegum forsendum.

„Bent er á að verði frumvarpið að lögum felur það í sér umtalsvert framsal á valdi frá löggjafanum til ráðherra. Aukinheldur verður ekki annað séð en að um mikilvægt byggðamál sé að ræða og að frumvarpið hafi mikil áhrif á réttindi og kjör starfsmanna sýslumanna, starfsemi embættanna og þjónustu.“

Þá liggi nákvæm fjárhagsáætlun eða langtímaáætlun ekki fyrir og fullkomin óvissa sé uppi um rekstrargrundvöll og störf um land allt.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar segir: „Bæjarstjórn Vestmannaeyja mótmælir þessum áformum harðlega.“

Einnig segir að Vestmannaeyjabær muni „gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reka ráðherrann til baka með áform sín“.

Leiðrétting: Ónákvæmni gætti við fyrri útgáfu fréttarinnar varðandi stöðu frumvarpsins á dagskrá þingsins.