Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur óskað eftir því að útgáfufélag Viljans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan verður tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi 12. nóvember næstkomandi, að því er fram kemur á vef dómstólsins.
Björn Ingi Hrafnsson rekur og ritstýrir vefmiðlinum Viljanum.
Gjaldþrot bæði 2017 og 2018
Björn Ingi var áður útgefandi Pressunnar og DV, í gegnum félögin Pressuna og Vefpressuna, auk þess sem hann fór fyrir félaginu BOS, sem átti og rak Argentínu steikhús, um tíma.
Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í lok árs 2017 og Vefpressan sumarið 2018. Félagið BOS var sömuleiðis úrskurðað gjaldþrota það ár eftir að Argentínu hafði verið skellt í lás.
Í fyrra sumar var farið fram á að fjórar landeignir fjölmiðlamannsins í Hvalfirði, yrðu settar á nauðungarsölu, en um er að ræða Másstaði 2 til 5. Kröfur í eignirnar námu um sjötíu milljónum króna.
Óhætt er að fullyrða að Björn Ingi eigi sérstakan sess í hjörtum Íslendinga enda nánast daglegur gestur á heimilum landsins meðan faraldurinn hefur geisað.
„Björn Ingi á Viljanum hér“
Björn Ingi hefur ekki misst af upplýsingafundum almannavarna, þar sem hann fer fremstur í flokki fréttamanna landsins með fyrirspurnum til þríeikisins. Hefur hann yfirleitt mál sitt á hinum meitluðu orðum: „Björn Ingi á Viljanum hér.“
Hann hefur nú þegar skrifað og gefið út bókina Vörn gegn veiru um faraldurinn.
