Hvalur sem sást í Faxaflóa 19. júní síðastliðinn hafði einungis þremur mánuðum fyrr verið myndaður við Grænhöfðaeyjar undan vesturströnd Afríku. Hann hafði því ferðast um 5400 kílómetra. Frá þessu er greint á vef Hafrannsóknarstofnunar þar sem hvalurinn er sagður hafa verið á faraldsfæti.
Það var í siglingu hvalaskoðunarfyrirtækisins Special Tours, sem hvalurinn sást hér við land í júní.

Á vef Hafrannsóknarstofnunnar segir að þakka megi þessar upplýsingar alþjóðlegu samstarfi við Grænhöfðaeyjar, sem samtöking BIOS.cv og Frederick Wenzel hafa umsjón með. „Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt þegar kemur að því að meta far dýra eins og hnúfubaks sem ferðast langar vegalengdir,“ segir á vef Hafró.
Hnúfubakar eru víðförul dýr. Þeir eyða sumrum sínum yfirleitt á fæðuslóðum í norðri, til að mynda við Íslandsstrendur eða Noreg. Yfir vetrarmánuðina halda þeir sig á heitari slóðum, frá Karabíahafi til áðurnefndra Grænhöfðaeyja.